Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Arna H. Jónsdóttir er dósent í leikskólafræði og menntastjórnun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar hafa meðal annars beinst að menntastjórnun í leikskólum, fagmennsku og faglegri sjálfsmynd (e. professional identities) leikskólakennara og leikskólastjóra. Rannsóknir hennar og áhugasvið tengjast starfsþróun og hvernig góður skóli verður sífellt betri og hvernig stjórnandi og forystumaður getur stuðlað að því.
Meginviðfangsefni menntastjórnunar er áhersla á þróun lærdómssamfélags og forystu innan þess. Horfa þarf til hlutverka stjórnenda, bæði formlegra og óformlegra, á vald og ábyrgð, á fagmennsku, ákvarðanatöku, samvinnu og tengsl á milli samstarfsfólks. Allir þessir þættir hafa áhrif á nám barna. Rannsóknir Örnu hafa beinst að ýmsum þessara þátta. Hún hefur rannsakað starfsánægju og stjórnun og skoðað míkrópólitísk tengsl á milli leikskólastjóra og annarra í leikskólum og samstarf um nám barna. Hún hefur beint sjónum sínum að því hvernig leikskólakennarastéttin varð sérfræðihópur og í því samhengi rannsakað fagmennsku, faglega sjálfsmynd, forystu og skynjun hagsmunaaðila á þessum þáttum í leikskólum.
Nýlega hefur Arna skoðað, ásamt öðrum rannsakanda, samstarf starfsfólks leikskóla við foreldra og einnig hvaða áhersla er á grunnþáttinn jafnrétti, ekki síst menningarlegan margbreytileika og kynjajafnrétti á mótum skólastiga, eða þegar barn fer úr leikskóla í grunnskóla og á frístundaheimili. Í því skyni hefur hún tekið viðtöl við skólastjóra og aðstoðarskólastjóra í leik- og grunnskólum og forstöðumenn frístundaheimila. Nú vinnur Arna að rannsókn á faglegri sjálfsmynd leikskólastjóra þar sem rannsóknaraðferðin byggir á óvæntu atviki (e. critical incident) á vinnustaðnum.
Rannsóknir Örnu hafa meðal annars beinst að menntastjórnun í leikskólum, fagmennsku og faglegri sjálfsmynd leikskólakennara og leikskólastjóra.
Arna vann að rannsóknarverkefni með samstarfsfólki sínu í menntastjórnun á Menntavísindasviði um áhrif kreppunnar á skólastarf. Þar voru framkvæmdar tvær rannsóknir, annars vegar um efnahagshrunið og skólastarf í tveimur sveitarfélögum úti á landi og hins vegar var gögnum safnað í Reykjavík um sama efni.
Arna var forstöðumaður Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna (RannUng) frá 2013 til 2016. Þar vann hún, ásamt fleirum, að spurningalistarannsókn á sjónarmiðum leikskólakennara og leiðbeinenda í öllum sveitarfélögum til ýmissa þátta og ábyrgðar í starfinu. Rannsóknin var gerð í samstarfi við Háskólann í Volda og nefndist MAFAL.
Þá tók Arna einnig þátt í alþjóðlegu verkefni á vegum RannUng um samfellu á mótum skólastiga í námi barna sem kallast POET (Pedagogy of Educational Transitions) þar sem kennarar úr háskólum í Ástralíu, Íslandi, Nýja-Sjálandi, Svíþjóð og Skotlandi gerðu rannsóknir og leituðu leiða til að auka samfellu í námi barna. Verkefnið var styrkt af People Marie Curie International Research og stóð frá 2012 til 2016. Rannsókn Örnu á því hvernig staðið er að því að framkvæma grunnþáttinn jafnrétti á mótum skólastiga, ekki síst hvað varðar menningarlegan margbreytileika og kynjajafnrétti, er byggð á þessu alþjóðlega verkefni.
Árin 2013 til 2015 tók Arna þátt í SIGNALS rannsóknarverkefninu ásamt fleirum af Menntavísindasviði en rannsóknin var hluti af Evrópuverkefni, Comenius, Lifelong Learning Programme. Þátttökulönd auk Íslands voru Danmörk, Svíþjóð, Þýskaland, Grikkland, Ungverjaland og Rúmenía. SIGNALS stóð fyrir Strengthening Activity-Oriented Interaction and Growth in the Early Years and in Transition. Þátttökulöndin fóru ólíkar leiðir við að útfæra verkefnið. Íslenska verkefnið fór fram í einum leikskóla í Reykjavík og fólst í starfendarannsókn um samvinnu leikskóla og grunnskóla með þátttöku barna, starfsfólks og foreldra.
Arna er fædd árið 1953. Að loknu stúdentsprófi árið 1973 fór hún í Fósturskóla Íslands og lauk þaðan prófi 1977. Árið 1983 fór hún í framhaldsnám í stjórnun og leiðsögn við Framhaldsdeild Fósturskóla Íslands og 1993 hóf Arna meistaranám við Kennaraháskóla Íslands og brautskráðist þaðan 1999. Verkefni hennar bar heitið Starfsánægja og stjórnun í leikskólum. Árið 2012 brautskráðist hún með doktorspróf frá Institute of Education, University of London. Doktorsverkefni hennar er um Professional roles, identities and leadership of Icelandic preschool teachers: Perceptions of stakeholders.
Mynd:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Arna H. Jónsdóttir stundað?“ Vísindavefurinn, 13. október 2018, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76395.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 13. október). Hvaða rannsóknir hefur Arna H. Jónsdóttir stundað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76395
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Arna H. Jónsdóttir stundað?“ Vísindavefurinn. 13. okt. 2018. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76395>.