Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Berglind Hálfdánsdóttir er lektor í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands ásamt því að starfa við fæðingarþjónustu. Rannsóknir hennar hafa beinst að barneignarþjónustu innan og utan sjúkrahúsa og inngripum í barneignarferlið.
Rannsóknir Berglindar hafa aðallega verið á sviði fæðingarþjónustu utan sjúkrahúsa. Doktorsrannsókn Berglindar var um heimafæðingar á Íslandi, forsendur þeirra, útkomu og áhrifaþætti. Hugtakagreining á sjálfræði kvenna um val á fæðingastað leiddi í ljós að það skilgreinist af upplýsingu, hæfi og frelsi, að gefinni forsendu um ætlað skaðleysi gagnvart öðrum og ábyrgð á afleiðingunum. Rannsóknir á útkomu fæðinga leiddu í ljós að tíðni hríðaörvunar, mænurótardeyfingar og blæðingar eftir fæðingu var marktækt lægri í fyrirfram ákveðnum heimafæðingum en sjúkrahúsfæðingum meðal hraustra kvenna en að aukin áhætta fylgdi ákvörðun um heimafæðingu hjá konum með skilgreindar frábendingar í heilsufari. Konur sem höfðu jákvætt viðhorf til þess að fæða heima höfðu jafnframt marktækt jákvæðara viðhorf til fæðinga, neikvæðara viðhorf til inngripa í fæðingarferlið og lægri tíðni hríðaörvunar, mænurótardeyfinga og innlagna á nýburagjörgæslu en konur sem höfðu neikvætt viðhorf til heimafæðinga. Frekari rannsóknarvinna Berglindar á þessu sviði hefur bent til þess að samfélagsleg viðhorf til heimafæðinga, eins og þau birtast í íslenskum fjölmiðlum, hafi almennt verið jákvæð.
Rannsóknir Berglindar hafa aðallega verið á sviði fæðingarþjónustu utan sjúkrahúsa.
Berglind hefur fylgt doktorsrannsókn sinni eftir með þátttöku í samnorrænu rannsóknarverkefni um heimafæðingar, Nordic Home Birth, þar sem hún rannsakar meðal annars útkomu fæðinga og áhrifaþætti á borð við vatnsfæðingar og heilsufarslegar frábendingar. Berglind tekur jafnframt þátt í alþjóðlegri rannsókn, International Variations Study, um inngripatíðni í ólíkum löndum og tengsl hennar við útkomu fæðinga. Þá tekur hún þátt í þróunarverkefninu Twinning up North, sem er samstarfsverkefni íslensku og hollensku ljósmæðrafélaganna.
Berglind er fædd árið 1973. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1993 og lagði stund á heimspeki við Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla árin 1993-1996. Berglind lauk BS-prófi í hjúkrunarfræði árið 2004 og kandídatsprófi í ljósmóðurfræði árið 2007 frá Háskóla Íslands. Árið 2011 lauk hún meistaraprófi í ljósmóðurfræði frá sama skóla og varði þar doktorsritgerð sína í ljósmóðurfræði árið 2016. Frá árinu 2007 hefur Berglind sinnt fjölbreyttum klínískum störfum við meðgönguvernd, fæðingarþjónustu og sængurlegu samhliða framhaldsnámi og fræðastörfum. Berglind var árið 2017 valin ungur vísindamaður Landspítala, en þar sinnir hún bæði klínísku og fræðilegu starfi.
Berglind hefur sinnt ýmsum félags- og stjórnunarstörfum. Hún var aðaltrúnaðarmaður Ljósmæðrafélags Íslands 2007-2009, stofnaði þar fagdeild um heimaþjónustu og situr nú í stjórn fagdeildar félagsins um fæðingarþjónustu og í ritnefnd fræðilegs efnis í Ljósmæðrablaðinu. Hún situr í Vísindaráði Landspítala og stjórn fagdeildar ljósmæðra á stofnuninni, ásamt því að vera varamaður í VísindanefndHeilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og sitja í ráðstefnunefndum fyrir innlendar og alþjóðlegar ráðstefnur.
Mynd:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Berglind Hálfdánsdóttir rannsakað?“ Vísindavefurinn, 9. september 2018, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76269.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 9. september). Hvað hefur vísindamaðurinn Berglind Hálfdánsdóttir rannsakað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76269
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Berglind Hálfdánsdóttir rannsakað?“ Vísindavefurinn. 9. sep. 2018. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76269>.