Nú er ég úr Vestur-Skaftafellssýslu og hef stundum velt fyrir mér öllum þessum heitum tengdum við "Skafta" (t.d. Skaftá) og að þetta gríðarlega landflæmi sem Vestur og Austur-Skaftafellssýsla tilheyrir. Var Skafti maður sem átti heima í Skaftafelli? Eða er átt við eitthvað landfræðilegt fyrirbrigði sem er líkt við "skaft"?Skaptá er nefnd í Landnámabók (Ísl. fornrit I, bls. 326) og Skaptafellsþing sömuleiðis (Ísl. fornrit I, bls. 328). Skaftafell hefur því verið þekkt frá fornu fari sem örnefni eða bær. Hugsanlegt er að skaft hafi verið reist sem landamerki, samanber að Skaftá er markafljót milli sýslna. Þess ber og að geta að Skafti var mannsnafn hér að fornu, ef til vill upphaflega sem viðurnefni, en ólíklegt er að áin væri kennd við mann. Engin heimild er um að maður að nafni Skafti hafi búið í Skaftafelli. Þórhallur Vilmundarson skrifaði um nafnið Skaftafell. (Grímnir 3:109-111). Hann nefnir þar að skaft komi allvíða fyrir í örnefnum og sé haft um kletta og hæðir, til dæmis Kleppsskaftið í Reykjavík. Í Svíþjóð og Noregi er nafnliðurinn skaft til um „utlöpare från fjäll, udde eller holme som ligger ytterst i en längre rad“ (Skaftö í Bóhúsléni) og ætti þá hliðstæðan að vera Skaftafellsheiðin sem gengur fram úr hærri fjallaklasa að vera „skaftið“ eða þá að „sköftin“ væru fleiri. Skaftá væri þá kennd á sama hátt við „sköft“, líklega upphaflega *Skaptaá. Stutta svarið er því að líklega er átt við landfræðilegt fyrirbæri. Mynd:
- Trail Skaftafellsheiði, Iceland 05.jpg - Wikimedia Commons. Höfundur myndar: Michal Klajban. Birt undir CC BY-SA 4.0 leyfi. (Sótt 13. 11. 2018).