Hverjum dettur í hug að gúmmístígvél séu ekki sjálfsögð þegar unnið er í bleytu og slabbi? Raunin er samt sú að það var fyrst undir lok annars eða á öndverðum þriðja áratug 20. aldar sem gúmmístígvél fóru að verja fætur íslensk verkafólks. Skóverslunin Hvannbergsbræður hóf ekki að selja gúmmístígvél fyrr en 1923 og í vörulista verslunarinnar Ellingsen frá 31. janúar 1918 er getið um „1 Par Gummistøvler“ (verð 28 kr.).Í bók Þorleifs kemur fram að tilkoma gúmmístígvéla hafi líklega verið ein stærsta breytingin á vinnuklæðnaði verkafólks á fyrri hluta 20 aldar og höfðu þau „gríðarlega jákvæðar breytingar í för með sér fyrir heilsu og vellíðan verkafólks“ (bls. 114). Eins og gildir um svo margt annað þá tengist þróun og útbreiðsla gúmmístígvéla hernaði á vissan hátt. Stígvél, það er eða segja skótau sem nær upp fyrir ökkla, hafa verið þekkt í margar aldir eða árþúsundir. Vinsældir þeirra og útbreiðsla meðal almennings nær þó ekki aftar en til 19. aldar. Í byrjun 19. aldar voru svokölluð Hessian-stígvél, hnéhá og támjó reiðstígvél úr leðri, algengt skótau hermanna, sérstaklega riddara. Upp úr aldarmótunum 1800 fékk Arthur Wellesley (1769–1852) hertogi af Wellington skósmið sinn til þess að breyta Hessing-stígvélum þannig að þau hentuðu betur til annarra nota en reiðmennsku, þau voru þrengd og náðu aðeins upp á miðja kálfa. Breytingin þótti takast vel, stígvélin náðu fljótt miklum vinsældum og þóttu það fín að vel mátt nota þau í samkvæmislífinu. Fljótlega var farið að nefna stígvélin eftir hertoganum og kalla þau "Wellington boots" eða Wellingtons á ensku, iðulega stytt sem Wellies. Enn þann dag í dag ganga stígvél undir þessu heiti.

Bandarískir hermenn í fyrri heimsstyrjöldinni á óþekktum stað í Frakklandi. Sá lengst til vinstri og sá í miðjunni eru í háum gúmmístígvélum (klofstígvélum) sem brett hafa verið niður.
- Þorleifur Friðriksson. Við brún nýs dags. Saga Verkamannafélagsins Dagsbrúnar 1906-1930. Efling stéttarfélag, Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 2007.
- Ísafold, 12.12.1903 - Timarit.is
- Ísafold, 30.01.1904 - Timarit.is.
- Wellington Boot History and Background - wellingtonboots.org.uk.
- The Invention of the Wellington Boot | English Heritage.
- Wellington boot - Wikipedia.
- Pair of Man's Dress Wellington Boots LACMA M.67.8.139a-b.jpg - Wikimedia Commons. (Mynd sótt 13.7.2018).
- WWI FACTS & FIGURES & MYTHS - Tommy 1418.com (Mynd sótt 13.7.2018).
- Best wellies for the Ploughing - Agriland.ie (Mynd sótt 13.7.2018)
Upphaflega var spurt "Hver fann upp á stígvélum?" og er þeirri spurningu svarað að hluta hér.