Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Valentina Giangreco M. Puletti, dósent í raunvísindadeild HÍ, stundar rannsóknir á mörkum kennilegrar eðlisfræði og stærðfræði. Sérgrein hennar er svonefnd strengjafræði og hún hefur einkum unnið að verkefnum sem tengjast heilmyndunartilgátu öreindafræðinnar (e. holographic principle), sem er tilgáta um fræðilega samsvörun milli ákveðinna skammtakenninga annars vegar og þyngdarfræði í tímarúmi með neikvæðan heimsfasta hins vegar.
Samsvörunin tengir á óvæntan hátt saman skammtasviðsfræði, eins og þá sem liggur til grundvallar hinu viðtekna líkani öreindafræðinnar, og þyngdarfræði í tímarúmi af hærri vídd. Það sem gerir þessa samsvörun sérlega áhugaverða í augum eðlisfræðinga er að hún gerir þeim annars vegar kleift að nota þekkingu á rúmfræði tímarúmsins þyngdarfræðimegin til að framkvæma útreikninga fyrir skammtakerfi með mjög sterkum víxlverkunum, sem erfitt er að fást við með reikniaðferðum skammtasviðsfræðinnar, og hins vegar að nota vel þekkta skammtasviðsfræði til að lýsa þyngdarfræði hins örsmáa þar sem almenna afstæðiskenningin á ekki lengur við.
Valentina Giangreco hefur einkum unnið að verkefnum sem tengjast heilmyndunartilgátu öreindafræðinnar.
Þessar byltingarkenndu hugmyndir hafa breytt skilningi eðlisfræðinga á innstu gerð rúms og tíma en um leið bjóða þær upp á óvænta hagnýtingu almennu afstæðiskenningarinnar og hafa leitt af sér nýjar reikniaðferðir sem koma að gagni á ýmsum sviðum kennilegrar eðlisfræði.
Dæmi um hagnýtingu samsvörunar milli skammtasviðsfræði og þyngdarfræði er að finna í skammtalitfræði (e. quantum chromodynamics, QCD), sem lýsir sterkum víxlverkunum milli kvarka og límeinda í öreindafræði, í skammtafræði fjöleindakerfa (e. many-body systems) í þéttefnisfræði og síðast en ekki síst í svonefndri skammtaupplýsingafræði (e. quantum information theory).
Valentina hefur á undanförnum árum einbeitt sér að hagnýtingu þyngdarfræði í skammtafræði fjöleindakerfa. Hún hefur meðal annars kannað hvernig mismunandi efnisfasar birtast í slíkum kerfum og eðli skammtafræðilegra fasabreytinga (e. quantum phase transitions). Nýlegar rannsóknir hennar hafa meðal annars beinst að reiknistærðum á borð við samþættingaróreiðu (e. entanglement entropy) sem nota má til að greina að mismunandi grannfræðilega efnisfasa (e. topological phases of matter) þar sem óstaðbundin skammtaáhrif gegna lykilhlutverki.
Valentina er fædd í Perugia á Ítalíu árið 1980. Hún lauk meistaraprófi frá Háskólanum í Perugia árið 2004 og doktorsprófi frá Uppsalaháskóla í Svíþjóð árið 2009. Að námi loknu hóf hún störf sem nýdoktor við Nordita (Norrænu stofnunina í kennilegri eðlisfræði) í Stokkhólmi. Árið 2011 færði hún sig um set til Chalmersháskóla í Gautaborg þar sem hún var einnig nýdoktor. Valentina hefur gegnt starfi dósents við námsbraut í stærðfræði við HÍ frá árinu 2013.
Mynd:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða hefur vísindamaðurinn Valentina Giangreco rannsakað?“ Vísindavefurinn, 28. apríl 2018, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75735.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 28. apríl). Hvaða hefur vísindamaðurinn Valentina Giangreco rannsakað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75735
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða hefur vísindamaðurinn Valentina Giangreco rannsakað?“ Vísindavefurinn. 28. apr. 2018. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75735>.