Til er orð í íslensku máli, dyrafaldur og skýrir sig sjálft. Annað orð um sama hlut er gerekti (flestir segja gerefti). Af hverju er orðið gerekti dregið?Nokkrar myndir eru til af orðinu sem spurt var um, gerekti. Sú er oft raunin þegar um tökuorð er að ræða sem menn þekkja aðeins úr töluðu máli en sjá ef til vill sjaldan á prenti. Aðrar myndir eru gerikti, geretti og gerifti sem spyrjandi nefndi einnig. Engin þessara mynda kemur fram í leit í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans. Sé leitað á vefnum timarit.is koma þrjár þeirra fyrst fyrir í auglýsingum. Gerekti birtist fyrst í auglýsingu í Vísi 1912, gerefti í blaðinu Stormi 1925 og geretti sömuleiðis í auglýsingu í Dagblaðinu Vísi 1957. Ekkert fannst þar um gerikti. Það segir ef til vill eitthvað um mismunandi notkun orðmynda að í Íslenskri orðsifjabók (1989:241) er uppflettimyndin geretti og gerefti nefnd þar fyrir aftan en í Íslenskri orðabók (2002:446) er uppsláttarmyndin gerikti en á eftir koma hinar þrjár. Danska tökuorðið er gerigt en það er aftur fengið úr þýsku Gericht. Merkingin er hin sama og í íslensku, ‘glugga- eða dyrakarmur, glugga- eða dyrafaldur.’ Mynd:
- Pixabay. (Sótt 23.4.2018).