Guðrún Jóhanna Stefánsdóttir er lektor við hestafræðideild Hólaskóla – Háskólans á Hólum. Guðrún hefur stundað rannsóknir á hestum í rúm 20 ár. Aðalviðfangsefnið hefur verið á sviði þjálfunarlífeðlisfræði íslenska hestsins en einnig hefur hún rannsakað liti íslenska hestsins og fóðrun hesta. Í meistaranámi sínu í Bretlandi rannsakaði hún, ásamt hópi vísindamanna, meltingu á nokkrum trénisríkum fóðurtegundum í botnlanga smáhesta, sem höfðu gat (e. fistula) á botnlanganum, með notkun netpoka-aðferðar.
Helstu rannsóknir Guðrúnar í doktorsnáminu í samstarfi við hóp íslenskra og sænskra vísindamanna, tengdust líkamlegu álagi á íslenska hestinn í kynbótasýningum, á gangtegundunum tölti, brokki og skeiði og áhrif af þunga knapa á líkamlegt álag á íslenska hesta á tölti. Meginniðurstöður rannsóknanna voru að mörg þeirra verkefna sem lögð eru fyrir íslenska hestinn, til dæmis kynbótasýning og keppni í 100 m flugskeiði, eru líkamlega erfið þar sem hestarnir hafa bæði háan hjartslátt og há gildi af mjólkursýru.
Guðrún hefur einnig tekið þátt í ýmsum þróunarverkefnum er varða íslenska hestinn svo sem innleiðingu á notkun fósturvísaflutninga í íslenskri hrossarækt, uppbyggingu á litaskráningarkerfi fyrir íslensk hross og hönnun á holdastigunarskala til að meta fóðrunarástand íslenskra hrossa.
Guðrún hefur kennt í rúmlega 20 ár við Hólaskóla, fyrst við Bændaskólann á Hólum og síðar Háskólann á Hólum. Hún hefur meðal annars kennt námskeið um hesta á sviðum fóðrunar, erfða-og kynbótafræði, sögu og þjálfunarlífeðlisfræði, auk þess að kenna vísindaskrif og gagnrýna hugsun, sem og að leiðbeina nemendum við rannsóknarskrif á BS-stigi.
Guðrún Jóhanna er fædd árið 1967 og lauk stúdentsprófi frá náttúrufræðibraut Menntaskólans á Akureyri 1987, búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hólum 1988 og BS-prófi í búvísindum frá Bændaskólanum á Hvanneyri (nú Landbúnaðarháskóla Íslands) 1991. Hún starfaði hjá Búnaðarsambandi Skagfirðinga við bændabókhald, kynbótadóma íslenska hestsins og fleiri verkefni 1991-1993. Síðan hóf hún nám að nýju og lauk MS-prófi í hestafræðum (Equine Science) frá Háskólanum í Aberystwyth í Wales 1996.
Guðrún hóf störf við kennslu og rannsóknir við Bændaskólann á Hólum 1996 og hefur starfað þar sleitulaust síðan, stundum samhliða námi. Hún var ráðin lektor við Hólaskóla 2007. Guðrún lauk námi í kennsluréttindum frá Háskólanum á Akureyri vorið 2009 og doktorsprófi í þjálfunarlífeðlisfræði hrossa frá sænska landbúnaðarháskólanum í Uppsala í Svíþjóð 2015. Myndir:- Úr safni GJS.