Þorgerður Jennýjardóttir Einarsdóttir er prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar spanna vítt svið innan kvenna- og kynjafræða og hún hefur tekið þátt í fjölda íslenskra og alþjóðlegra rannsóknarverkefna.
Fyrstu rannsóknir Þorgerðar voru á sviði sérfræðihópa og fagþróunar í framhaldi af doktorsritgerð hennar um kynja- og sérgreinaskiptingu læknastéttarinnar. Rannsóknir á samræmingu atvinnu og fjölskyldulífs, og þátttöku karla í fjölskyldulífi, voru einnig fyrirferðamiklar í upphafi. Undir forystu Þorgerðar hefur nám í kynjafræði í Háskóla Íslands verið byggt upp og skapað sér sess í íslensku samfélagi. Meðal rannsóknasviða hennar má nefna menntakerfið frá grunnskólastiginu til háskóla; atvinnulíf, allt frá launamun kynja, konum í forystusveit atvinnulífsins til vinnu kvenna í hnattrænu ljósi. Þá hefur efnahagsleg, félagsleg og pólitísk staða kvenna á Íslandi, sem og jafnréttispólitík verið hluti af rannsóknum hennar frá upphafi.
Rannsóknir Þorgerðar spanna vítt svið innan kvenna- og kynjafræða. Undir forystu hennar hefur nám í kynjafræði í Háskóla Íslands verið byggt upp og skapað sér sess í íslensku samfélagi.
Þorgerður fæddist árið 1957. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði árið 1977, fil.kand-prófi í félagsfræði með sálfræði sem aukagrein frá Gautaborgarháskóla árið 1982 og doktorsprófi í félagsfræði frá sama skóla árið 1997. Eftir doktorspróf var Þorgerður sjálfstætt starfandi fræðimaður og nýdoktor við Háskóla Íslands frá 1998-2000. Þorgerður var ráðin lektor í kynjafræði við Háskóla Íslands árið 2000 og var sú fyrsta til að gegna því starfi. Hún varð dósent árið 2004 og prófessor 2009. Þorgerður hefur verið gestafræðimaður við Uppsalaháskóla, Rutgers-háskóla, Lancaster-háskóla, Victoria-háskóla, og háskólann í Albany.
Mynd:- Úr safni ÞJE.