Magnús Már Halldórsson er prófessor í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Rannsóknir hans snúa að reikniritum (e. algorithms) frá fræðilegum sjónarhóli.
Síðari ár hafa rannsóknir Magnúsar beinst sérstaklega að verkröðun í þráðlausum netum. Þráðlausar sendingar trufla óhjákvæmilega önnur samskipti á sömu rás og því er mikilvægt að sendingunum sé raðað þannig niður á rásir og tímahólf að truflanir séu innan þolmarka. Slíkar ákvarðanir hafa lengi þótt erfiðar að greina, en Magnúsi og samstarfsmönnum hans hefur nýlega tekist að sýna fram á að hægt sé að stilla upp einfaldari netalíkani en áður hefur þekkst, sem einfaldar lausn viðfangsefnanna til muna. Þessar niðurstöður leiddu til tvennra verðlauna fyrir bestu greinar á ráðstefnu árið 2017.
Magnús hefur kennt og stundað rannsóknir við háskóla í Japan, Björgvinarháskóla, ásamt Háskóla Íslands. Magnús er forstöðumaður þekkingarseturs í fræðilegri tölvunarfræði (ICE-TCS) við Háskólann í Reykjavík.
Magnús fæddist árið 1963 og lauk stúdentsprófi frá eðlissviði Menntaskólans við Hamrahlíð 1982. Hann lauk BS-gráðum í stærðfræði og tölvunarfræði frá Háskólanum í Oregon í Bandaríkjunum árið 1985, og doktorsgráðu frá Rutgers-háskóla í New Jersey árið 1991. Hann hlaut Hvatningarverðlaun Rannsóknarráðs 2001, og fyrstu rannsóknaverðlaun sem veitt voru við Háskólann í Reykjavík, árið 2010.
Mynd:- Úr safni MMH.