Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvert var upplag prentaðra bóka á Íslandi fyrr á öldum?

Már Jónsson

Prentlistin skipti sköpum um dreifingu ritmáls, því nú mátti fjölfalda texta í hundruðum og þúsundum eintaka. Það hafði áður tekið vikur eða mánuði að afrita eitt einasta handrit. Fyrstu bækurnar voru prentaðar í Þýskalandi um og eftir miðja 15. öld. Á næstu áratugum voru stofnaðar prentsmiðjur um alla Evrópu, þar á meðal í Óðinsvéum árið 1482 og Kaupmannahöfn árið 1495 en á Hólum í Hjaltadal um 1530. Eftir það var ávallt ein prentsmiðja á Íslandi og tvær árin 1773–1794, þegar prentsmiðja var rekin í Hrappsey á Breiðafirði. Nokkuð var um það líka að bækur væru prentaðar á íslensku í Kaupmannahöfn, ekki síst á fyrri hluta 19. aldar. Meginrit um sögu prentunar og bókaútgáfu tilgreina ekki upplagstölur, en sitthvað má tína saman héðan og þaðan. Verður í svarinu einkum byggt á óbirtum gögnum frá árunum 1831–1846.

Prentarar að störfum. Myndin er fengin úr frönsku alfræðiriti frá síðari hluta 19. aldar.

Vitað er að árið 1584 var Guðbrandsbiblía prentuð í 500 eintökum. Fimm árum síðar var sálmabók gefin út í 375 eintökum. Í tíð Þorláks Skúlasonar biskups á Hólum árin 1628–1656 voru guðsorðabækur prentaðar í 500 til 700 eintökum. Fyrir miðja 18. öld voru flestar bækur Hólaprentsmiðju gefnar út í 300 til 500 eintökum en frá og með 1745 voru upplögin höfð stærri. Postilla Jóns biskups Vídalíns mun hafa komið út það ár í 1000 eintökum. Tvær bækur sem innihéldu Íslendingasögur og þætti, Nokkrir margfróðir söguþættir og Ágætar fornmannasögur, voru árið 1756 prentaðar á Hólum í 1000 eintökum og þýðing tveggja spennusagna, hins sænska Gústavs og hins enska Bertholds, í 800 eintökum.

Svo að fáein stök dæmi séu tekin til viðbótar voru húslestrarhugleiðingar séra Jóns Guðmundssonar, Tvisvar sjöfalt misseraskiptaoffur, prentaðar í 1000 eintökum í Hrappsey árið 1794. Það ár var prentsmiðjan flutt að Leirárgörðum í Borgarfirði að frumkvæði Magnúsar Stephensens og annarra framámanna. Prentsmiðjan að Hólum var síðan lögð niður árið 1799 og allur búnaður sendur suður í Borgarfjörð. Árið 1815 var prentsmiðjan flutt frá Leirárgörðum að Beitistöðum þar nærri og fjórum árum síðar tók Magnús hana með sér til Viðeyjar. Árið 1810 hafði hann gefið út leiðbeiningar fyrir hreppstjóra árið 1810 í 1020 eintökum og áratug síðar lét hann prenta uppbyggileg samtöl eftir sjálfan sig, Ræður Hjálmars á Bjargi, í 710 eintökum. Sú bók seldist upp á einu ári.

Hér sjást upplög bóka sem voru prentaðar í Viðey árið 1838. Heimild Lbs. 2089 4to.

Í handritinu Lbs. 2089 4to má finna nákvæmar tölur um upplag bóka sem prentaðar voru í Viðey árin 1831–1844 og síðan í Reykjavík til ársloka 1846. Helgi Helgason prentari tók þær saman að beiðni Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara og bókavarðar (sjá mynd). Má þar sjá að árin 1840–1841 var Biblían prentuð í 1400 eintökum. Passíusálmar séra Hallgríms Péturssonar voru hins vegar prentaðir í 2000 eintökum árið 1832 og fjórum árum síðar í 2500 eintökum. Enn komu þeir út árið 1841 og nú í 2500 eintökum. Árið 1840 voru Íslendingar 57 þúsund talsins og jafngilda 7000 bækur á níu árum því að eitt eintak var prentað á hverja átta íbúa. Það er ævintýralega mikið og samsvarar hvorki meira né minna en 40 þúsund eintaka upplagi nú, sem vart þekkist. Auðvitað voru gefnar út miklu færri bækur þá en nú og á meðalheimili voru kannski á bilinu tíu til tuttugu titlar, mest guðsorðabækur.

Verð Passíusálmanna árið 1832 var hálfur ríkisdalur (sjá mynd) eða kr. 4500 á núvirði, og er þá miðað við að gemlingur (veturgömul kind) var á þessum árum metinn á einn ríkisdal en reiknast nú á kr. 9000 í framtalsleiðbeiningum ríkisskattstjóra (2017, kafli 8.1.6). Samanlagðar lausafjáreignir meðalheimilis um miðja 19. öld námu 250 ríkisdölum, þar með talið búfé. Út frá sama viðmiði myndi sú upphæð reiknast sem 2,2 milljónir á núvirði.

Á árunum 1832-1841 komu Passíusálmarnir út í 7000 eintökum. Það samsvarar um 40.000 eintaka upplagi nú, sem vart þekkist. Verð Passíusálmanna árið 1832 samsvarar 4.500 kr. á núvirði.

Aðrar guðsorðabækur voru prentaðar í litlu minna mæli. Sívinsælar hugvekjur eftir þýska guðfræðinginn Christoph Christian Sturm (1740–1786) komu fyrst út á íslensku árið 1796 og nokkrum sinnum síðar. Prentuð voru 1000 eintök bindanna þriggja árin 1832 og 1833, en fyrsta bindið svo aftur í 2000 eintökum árið 1835 og hin tvö í 3000 eintökum árið 1838. Sálmabók var prentuð í 1320 eintökum árið 1831 og 1200 árið eftir, en árið 1837 var aukið í með 3800 eintökum. Stafrófskver ætlað börnum var gefið út í 1000 eintökum árið 1832 og aftur árin 1834 og 1835 í tvöfalt fleiri eintökum samanlagt, en næst árið 1843 í 800 eintökum. Enn meira var prentað af fermingarkveri eftir danska guðfræðinginn Edwin Nicolai Balle (1744–1816). Það kom út í 1060 eintökum árið 1831 og þremur árum síðar aftur í 2500 eintökum en þremur árum eftir það í 4000 eintökum. Árið 1842 var bókin prentuð í 2500 eintökum til viðbótar. Þarna mótar fyrir gríðarmiklu uppfræðsluátaki jafnt um lestur og viðhorf sem vert væri að rannsaka betur.

Af bókmenntum má nefna að árið 1833 komu út þrjú rímnakver, Úlfarsrímur í 2000 eintökum, Andrarímur í 1500 eintökum og Svoldarrímur í 1000. Númarímur Sigurðar Breiðfjörð voru prentaðar í 2000 eintökum árið 1835 og rímur af Hákoni Hárekssyni eftir Jóhannes Jónsson í 1200 eintökum ári síðar, en Líkafrónsrímur í 1000 eintökum árið 1843. Kvæðasafn Benedikts Gröndals yfirdómara var hins vegar gefið út í 1000 eintökum árið 1833 á kostnað tengdasonar hans, Sveinbjarnar Egilssonar kennara við Bessastaðaskóla. Árið 1842 voru kvæði Magnúsar Stephensens prentuð í tvöfalt fleiri eintökum. Njáls saga var prentuð í 1000 eintökum árið 1844 og leikrit Sigurðar Péturssonar tveimur árum síðar í 900 eintökum. Ágrip af mannkynssögunni eftir Pál Melsteð var gefið út í 600 eintökum árið 1844 en Stjörnufræði, létt og handa alþýðu eftir Georg Frederik Ursin í þýðingu Jónasar Hallgrímssonar í 1100 eintökum tveimur árum fyrr. Árleg boðsrit Bessastaðaskóla, sem meðal annars geymdu Ódysseifskviðu í þýðingu Sveinbjarnar, komu út í litlum 400–500 eintökum. Má til samanburðar nefna að vorið 1850 var skáldsagan Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen prentuð í 500 eintökum í Kaupmannahöfn. Þegar hún svo kom aftur út í Reykjavík árið 1867 lét Jón prenta hana í 1200 eintökum. Biblían hafði verið prentuð að nýju átta árum fyrr í 2000 eintökum og verður því ekki svarað hér hvort fjölgun eintaka sýni sértækar vinsældar þessara tveggja rita eða vaxandi bókamarkað.

Óbirtar heimildir:
  • Lbs. 2089 4to. Personalia og samtíningur Jóns Árnasonar, efst: „Prentaðar bækur frá byrjun júlímánaðar 1831“. Ég þakka Braga Þorgrími Ólafssyni fyrir ábendinguna.

Prentheimildir:
  • Böðvar Kvaran, Auðlegð Íslendinga. Brot úr sögu íslenzkrar bókaútgáfu og prentunar frá öndverðu fram á þessa öld (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 1995), bls. 151–171.
  • Einar Gunnar Pétursson, „Bókaútgáfa á biskupsstólunum“, Saga biskupsstólanna. Ritstjóri Gunnar Kristjánsson. Akureyri: Hólar 2006, bls. 603.
  • Helgi Magnússon, „Fræðafélög og bókaútgáfa“, Upplýsingin á Íslandi. Tíu ritgerðir. Ritstjóri Ingi Sigurðsson. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 1990, bls. 205.
  • Helgi Þorláksson, Saga Íslands VI. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 2003, bls. 183.
  • Ingi Rúnar Eðvarðsson, Prent eflir mennt. Saga bókagerðar frá upphafi til síðari hluta 20. aldar (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 1994), bls. 45–47, 212–214.
  • Jakob Benediktsson, „Bókagerð Þorláks biskups Skúlasonar“, Saga og kirkja. Afmælisrit Magnúsar Más Lárussonar. Reykjavík: Sögufélag 1988, bls. 193–197.
  • Kristín Bragadóttir, „Hrappseyjarprentsmiðja“, Bókasafnið 36 (2012), bls. 8–15.
  • Loftur Guttormsson, „Framleiðsla og dreifing ritaðs máls“, Alþýðumenning á Íslandi 1830–1930. Ritstjórar Ingi Sigurðsson og Loftur Guttormsson (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands 2003), bls. 55.
  • Már Jónsson, „Skáldsagan Piltur og stúlka: prófarkir, prentun, dreifing, sala“, Saga 54:2 (2016), bls. 153–181.
  • Torfi Stefánsson Hjaltalín, „elska Guð og biðja“ – Guðræknibókmenntir á Íslandi á lærdómsöld. Reykjavík: Flateyjarútgáfan 2016, bls. 248, 269, 290.
  • „Þann arf vér bestan fengum“ – Íslenskar biblíuútgáfur. Ritstjóri Sigurður Ægisson. Reykjavík: Hið íslenska biblíufélag 2015, bls. 21, 23.

Vefheimildir:

Myndir:

Spurningu Kristjáns Hrannars er hér svarað að hluta.

Höfundur

Már Jónsson

prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

12.12.2017

Spyrjandi

Kristján Hrannar Pálsson, ritstjórn

Tilvísun

Már Jónsson. „Hvert var upplag prentaðra bóka á Íslandi fyrr á öldum?“ Vísindavefurinn, 12. desember 2017, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74880.

Már Jónsson. (2017, 12. desember). Hvert var upplag prentaðra bóka á Íslandi fyrr á öldum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74880

Már Jónsson. „Hvert var upplag prentaðra bóka á Íslandi fyrr á öldum?“ Vísindavefurinn. 12. des. 2017. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74880>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvert var upplag prentaðra bóka á Íslandi fyrr á öldum?
Prentlistin skipti sköpum um dreifingu ritmáls, því nú mátti fjölfalda texta í hundruðum og þúsundum eintaka. Það hafði áður tekið vikur eða mánuði að afrita eitt einasta handrit. Fyrstu bækurnar voru prentaðar í Þýskalandi um og eftir miðja 15. öld. Á næstu áratugum voru stofnaðar prentsmiðjur um alla Evrópu, þar á meðal í Óðinsvéum árið 1482 og Kaupmannahöfn árið 1495 en á Hólum í Hjaltadal um 1530. Eftir það var ávallt ein prentsmiðja á Íslandi og tvær árin 1773–1794, þegar prentsmiðja var rekin í Hrappsey á Breiðafirði. Nokkuð var um það líka að bækur væru prentaðar á íslensku í Kaupmannahöfn, ekki síst á fyrri hluta 19. aldar. Meginrit um sögu prentunar og bókaútgáfu tilgreina ekki upplagstölur, en sitthvað má tína saman héðan og þaðan. Verður í svarinu einkum byggt á óbirtum gögnum frá árunum 1831–1846.

Prentarar að störfum. Myndin er fengin úr frönsku alfræðiriti frá síðari hluta 19. aldar.

Vitað er að árið 1584 var Guðbrandsbiblía prentuð í 500 eintökum. Fimm árum síðar var sálmabók gefin út í 375 eintökum. Í tíð Þorláks Skúlasonar biskups á Hólum árin 1628–1656 voru guðsorðabækur prentaðar í 500 til 700 eintökum. Fyrir miðja 18. öld voru flestar bækur Hólaprentsmiðju gefnar út í 300 til 500 eintökum en frá og með 1745 voru upplögin höfð stærri. Postilla Jóns biskups Vídalíns mun hafa komið út það ár í 1000 eintökum. Tvær bækur sem innihéldu Íslendingasögur og þætti, Nokkrir margfróðir söguþættir og Ágætar fornmannasögur, voru árið 1756 prentaðar á Hólum í 1000 eintökum og þýðing tveggja spennusagna, hins sænska Gústavs og hins enska Bertholds, í 800 eintökum.

Svo að fáein stök dæmi séu tekin til viðbótar voru húslestrarhugleiðingar séra Jóns Guðmundssonar, Tvisvar sjöfalt misseraskiptaoffur, prentaðar í 1000 eintökum í Hrappsey árið 1794. Það ár var prentsmiðjan flutt að Leirárgörðum í Borgarfirði að frumkvæði Magnúsar Stephensens og annarra framámanna. Prentsmiðjan að Hólum var síðan lögð niður árið 1799 og allur búnaður sendur suður í Borgarfjörð. Árið 1815 var prentsmiðjan flutt frá Leirárgörðum að Beitistöðum þar nærri og fjórum árum síðar tók Magnús hana með sér til Viðeyjar. Árið 1810 hafði hann gefið út leiðbeiningar fyrir hreppstjóra árið 1810 í 1020 eintökum og áratug síðar lét hann prenta uppbyggileg samtöl eftir sjálfan sig, Ræður Hjálmars á Bjargi, í 710 eintökum. Sú bók seldist upp á einu ári.

Hér sjást upplög bóka sem voru prentaðar í Viðey árið 1838. Heimild Lbs. 2089 4to.

Í handritinu Lbs. 2089 4to má finna nákvæmar tölur um upplag bóka sem prentaðar voru í Viðey árin 1831–1844 og síðan í Reykjavík til ársloka 1846. Helgi Helgason prentari tók þær saman að beiðni Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara og bókavarðar (sjá mynd). Má þar sjá að árin 1840–1841 var Biblían prentuð í 1400 eintökum. Passíusálmar séra Hallgríms Péturssonar voru hins vegar prentaðir í 2000 eintökum árið 1832 og fjórum árum síðar í 2500 eintökum. Enn komu þeir út árið 1841 og nú í 2500 eintökum. Árið 1840 voru Íslendingar 57 þúsund talsins og jafngilda 7000 bækur á níu árum því að eitt eintak var prentað á hverja átta íbúa. Það er ævintýralega mikið og samsvarar hvorki meira né minna en 40 þúsund eintaka upplagi nú, sem vart þekkist. Auðvitað voru gefnar út miklu færri bækur þá en nú og á meðalheimili voru kannski á bilinu tíu til tuttugu titlar, mest guðsorðabækur.

Verð Passíusálmanna árið 1832 var hálfur ríkisdalur (sjá mynd) eða kr. 4500 á núvirði, og er þá miðað við að gemlingur (veturgömul kind) var á þessum árum metinn á einn ríkisdal en reiknast nú á kr. 9000 í framtalsleiðbeiningum ríkisskattstjóra (2017, kafli 8.1.6). Samanlagðar lausafjáreignir meðalheimilis um miðja 19. öld námu 250 ríkisdölum, þar með talið búfé. Út frá sama viðmiði myndi sú upphæð reiknast sem 2,2 milljónir á núvirði.

Á árunum 1832-1841 komu Passíusálmarnir út í 7000 eintökum. Það samsvarar um 40.000 eintaka upplagi nú, sem vart þekkist. Verð Passíusálmanna árið 1832 samsvarar 4.500 kr. á núvirði.

Aðrar guðsorðabækur voru prentaðar í litlu minna mæli. Sívinsælar hugvekjur eftir þýska guðfræðinginn Christoph Christian Sturm (1740–1786) komu fyrst út á íslensku árið 1796 og nokkrum sinnum síðar. Prentuð voru 1000 eintök bindanna þriggja árin 1832 og 1833, en fyrsta bindið svo aftur í 2000 eintökum árið 1835 og hin tvö í 3000 eintökum árið 1838. Sálmabók var prentuð í 1320 eintökum árið 1831 og 1200 árið eftir, en árið 1837 var aukið í með 3800 eintökum. Stafrófskver ætlað börnum var gefið út í 1000 eintökum árið 1832 og aftur árin 1834 og 1835 í tvöfalt fleiri eintökum samanlagt, en næst árið 1843 í 800 eintökum. Enn meira var prentað af fermingarkveri eftir danska guðfræðinginn Edwin Nicolai Balle (1744–1816). Það kom út í 1060 eintökum árið 1831 og þremur árum síðar aftur í 2500 eintökum en þremur árum eftir það í 4000 eintökum. Árið 1842 var bókin prentuð í 2500 eintökum til viðbótar. Þarna mótar fyrir gríðarmiklu uppfræðsluátaki jafnt um lestur og viðhorf sem vert væri að rannsaka betur.

Af bókmenntum má nefna að árið 1833 komu út þrjú rímnakver, Úlfarsrímur í 2000 eintökum, Andrarímur í 1500 eintökum og Svoldarrímur í 1000. Númarímur Sigurðar Breiðfjörð voru prentaðar í 2000 eintökum árið 1835 og rímur af Hákoni Hárekssyni eftir Jóhannes Jónsson í 1200 eintökum ári síðar, en Líkafrónsrímur í 1000 eintökum árið 1843. Kvæðasafn Benedikts Gröndals yfirdómara var hins vegar gefið út í 1000 eintökum árið 1833 á kostnað tengdasonar hans, Sveinbjarnar Egilssonar kennara við Bessastaðaskóla. Árið 1842 voru kvæði Magnúsar Stephensens prentuð í tvöfalt fleiri eintökum. Njáls saga var prentuð í 1000 eintökum árið 1844 og leikrit Sigurðar Péturssonar tveimur árum síðar í 900 eintökum. Ágrip af mannkynssögunni eftir Pál Melsteð var gefið út í 600 eintökum árið 1844 en Stjörnufræði, létt og handa alþýðu eftir Georg Frederik Ursin í þýðingu Jónasar Hallgrímssonar í 1100 eintökum tveimur árum fyrr. Árleg boðsrit Bessastaðaskóla, sem meðal annars geymdu Ódysseifskviðu í þýðingu Sveinbjarnar, komu út í litlum 400–500 eintökum. Má til samanburðar nefna að vorið 1850 var skáldsagan Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen prentuð í 500 eintökum í Kaupmannahöfn. Þegar hún svo kom aftur út í Reykjavík árið 1867 lét Jón prenta hana í 1200 eintökum. Biblían hafði verið prentuð að nýju átta árum fyrr í 2000 eintökum og verður því ekki svarað hér hvort fjölgun eintaka sýni sértækar vinsældar þessara tveggja rita eða vaxandi bókamarkað.

Óbirtar heimildir:
  • Lbs. 2089 4to. Personalia og samtíningur Jóns Árnasonar, efst: „Prentaðar bækur frá byrjun júlímánaðar 1831“. Ég þakka Braga Þorgrími Ólafssyni fyrir ábendinguna.

Prentheimildir:
  • Böðvar Kvaran, Auðlegð Íslendinga. Brot úr sögu íslenzkrar bókaútgáfu og prentunar frá öndverðu fram á þessa öld (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 1995), bls. 151–171.
  • Einar Gunnar Pétursson, „Bókaútgáfa á biskupsstólunum“, Saga biskupsstólanna. Ritstjóri Gunnar Kristjánsson. Akureyri: Hólar 2006, bls. 603.
  • Helgi Magnússon, „Fræðafélög og bókaútgáfa“, Upplýsingin á Íslandi. Tíu ritgerðir. Ritstjóri Ingi Sigurðsson. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 1990, bls. 205.
  • Helgi Þorláksson, Saga Íslands VI. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 2003, bls. 183.
  • Ingi Rúnar Eðvarðsson, Prent eflir mennt. Saga bókagerðar frá upphafi til síðari hluta 20. aldar (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 1994), bls. 45–47, 212–214.
  • Jakob Benediktsson, „Bókagerð Þorláks biskups Skúlasonar“, Saga og kirkja. Afmælisrit Magnúsar Más Lárussonar. Reykjavík: Sögufélag 1988, bls. 193–197.
  • Kristín Bragadóttir, „Hrappseyjarprentsmiðja“, Bókasafnið 36 (2012), bls. 8–15.
  • Loftur Guttormsson, „Framleiðsla og dreifing ritaðs máls“, Alþýðumenning á Íslandi 1830–1930. Ritstjórar Ingi Sigurðsson og Loftur Guttormsson (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands 2003), bls. 55.
  • Már Jónsson, „Skáldsagan Piltur og stúlka: prófarkir, prentun, dreifing, sala“, Saga 54:2 (2016), bls. 153–181.
  • Torfi Stefánsson Hjaltalín, „elska Guð og biðja“ – Guðræknibókmenntir á Íslandi á lærdómsöld. Reykjavík: Flateyjarútgáfan 2016, bls. 248, 269, 290.
  • „Þann arf vér bestan fengum“ – Íslenskar biblíuútgáfur. Ritstjóri Sigurður Ægisson. Reykjavík: Hið íslenska biblíufélag 2015, bls. 21, 23.

Vefheimildir:

Myndir:

Spurningu Kristjáns Hrannars er hér svarað að hluta.

...