Ég hef stundum velt fyrir mér lýsingarorðinu "vaskur" (sbr. vaskir menn). Getur verið að hér sé átt við Baska (Vasco). Er hugsanlegt að Íslendingum hafi þótt Baskarnir duglegir veiðimenn og að orðið hafi þannig orðið til?Ég tel ekki líkur á að lýsingarorðið vaskur ‘röskur, hraustur’ tengist Böskum. Það þekkist í íslensku og færeysku en ekki í þessari mynd í öðrum norðurgermönskum málum. Ásgeir Blöndal Magnússon (1989: 1098, 1110) telur það skylt vakur ‘árvakur, snarráður’ og sama telur Jan de Vries (1962: 640, 648); -s-ið væri þá viðskeyti við stofninn vak- sem nýttur er í norður- og vesturgermönskum málum. Undir þetta er tekið í öðrum orðabókum, sem ég sló upp í, og hygg ég þetta líklega skýringu og hef ekki aðra betri. Heimildir:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- Vries, Jan de. 1962. Isländisches eyymologisches Wörterbuch. 1962. E.J.Brill, Leiden.
- File:06 laiatzen.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 16.4.2018)