Góðan dag, í LXXVIIunda kapítula Grettis sögu má lesa um útlegð á þjóðveldistímanum. En í hvaða lögum finnum við þessi 20 ár sem afmarka dauða og frelsi? Fjalla-Eyvindur dugir ekki til, en engin svör í Grágás heldur. Hvað var fólk lengi í útlegð á miðöldum? Bestu kveðjur frá Vín, ykkar aðdáandi EleonoreHér er síðari hluta spurningarinnar svarað. Bæði lögum og sögum ber saman um það að til voru mismunandi tegundir útlegða á miðöldum. Fjörbaugsgarður (Grágás, bls. 408-10) þýddi þriggja ára útlegð og að fjörbaugsmaðurinn þyrfti að greiða sekt eða svokallaðan fjörbaug til að fara utan. Að þremur árum liðnum gat hann komið aftur til landsins og haldið áfram lífi sínu. Einnig var til héraðssekt sem þýddi að viðkomandi þyrfti að yfirgefa heimkynni sín og, þar sem við á, jarðeignir sínar, en gat dvalið hættulaust annars staðar. Skóggangur var ævilöng útlegð. Skóggangsmaður var „óæll“ og „óferjandi“, sem þýddi að það mátti ekki fæða hann, skjóta yfir hann skjólshúsi né flytja hann af landi brott. Hann var réttdræpur. Erfitt var að draga fram lífið í óbyggðum og því jafngilti skóggangur dauðadómi. Hvernig dómum þessum var framfylgt fór eftir ýmsu, meðal annars alvarleika brotsins en ekki síður félagslegri stöðu viðkomandi og þeim stuðningi sem hann gat fengið á þingum. Heimildir:
- Íslensk bókmenntasaga II, ritstjóri Vésteinn Ólason. Reykjavík: Mál og menning, 1993.
- Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson, Mörður Árnason sáu um útgáfuna. Reykjavík, Mál og menning, 1992.
- John Vernon Lord: Grettir's ram on Drang Island butting the hut door. (Sótt 20.10.2017).