Það er alltaf talað um að eitthvað sé haldið með pomp og prakt en hvað er þetta pomp og prakt?Orðasambandið með pomp(i) og prakt er fengið að láni úr dönsku, med pomp og prakt. Í sögulegu dönsku orðabókinni, Ordbog ober det danske sprog, er pomp gefið í merkingunni ‘klæðnaður sem athygli vekur fyrir glæsileik’ og er þar tekið fram að orðið sé þá einkum notað í sambandinu med pomp og prakt. Bæði nafnorðin hafa þar sömu merkingu sem er þá tvítekin. Pomp virðist enn notað í þessari merkingu í dönsku, samanber Den danske ordbog, sem nær yfir danskt nútímamál, en þar er orðasambandið ekki nefnt. Báðar þessar orðabækur má finna undir dsl.dk. Orðasambandið er ekki heldur í nýlegri orðabók um dönsk orðatiltæki, Talemåder i dansk. Í Íslenskri orðabók (2002:1137) er engin merking gefin við pomp, aðeins vísað í orðasambandið með pomp (eða pompi) og prakt. Gefin er upp tvenns konar merking orðasambandsins, annars vegar ‘með mikilli viðhöfn’ en hins vegar ‘fljótt og vel’. Prakt merkir eitt og sér ‘dýrð, viðhöfn’ og þekkist í málinu að minnsta kosti frá því á 17. öld. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er elsta heimild um pomp og prakt úr þýddri bók, Heims Historia sümmerud af Hermanne Fabronio --- kortat og vtdreigit af Jone Guðmundisyne, sem gefin var út 1647. Mynd:
Útgáfudagur
27.12.2017
Spyrjandi
Kristinn Freyr Vídó Þórsson
Tilvísun
Guðrún Kvaran. „Hvað halda menn með pomp og prakt?“ Vísindavefurinn, 27. desember 2017, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74628.
Guðrún Kvaran. (2017, 27. desember). Hvað halda menn með pomp og prakt? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74628
Guðrún Kvaran. „Hvað halda menn með pomp og prakt?“ Vísindavefurinn. 27. des. 2017. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74628>.