Er höfuðborgarsvæðið sérnafn líkt og Vesturland, sem ber að rita með stórum staf? Mér þætti það verra! Ég er sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu en heiti stofnunarinnar rita ég Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Er ég úti á túni í þessu?Svar við meginefni spurningarinnar er að finna hér: Er höfuðborgarsvæðið orðið að sérnafni og ritað með stórum staf? Sumar stofnanir bera sama heiti og æðsti embættismaður þeirra. Þetta getur valdið ruglingi og óvissu um hvort nota eigi stóran eða lítinn staf. Þegar sagt er: Ég vinn hjá landlækni/Landlækni, getur það bæði vísað til landlæknis sjálfs og Embættis landlæknis. Í grein 1.2.2.5 í ritreglum Íslenskrar málnefndar er vikið að þessu. Þar segir:
Athugið. Nöfn stofnana/embætta sem bera heiti sem jafnframt er starfsheiti æðsta yfirmanns, til dæmis sýslumaðurinn í Reykjavík, umboðsmaður Alþingis, ríkislögreglustjóri, má ætíð rita með litlum upphafsstaf, en einnig er heimilt að rita stóran staf ef augljóslega er vísað til stofnunarinnar en ekki starfsmannsins sem veitir henni forstöðu.Í grein 1.3.2 a í ritreglunum er einnig tilgreint að starfsheiti og titlar séu samnöfn og skuli rita með litlum staf, til dæmis landlæknir, sjómaður, nema þegar þegar þeim er skeytt aftan við heiti þjóðar, lands, stofnunar eða fyrirtækis, til dæmis Rússlandskeisari.

Starfsheiti og titlar eru samnöfn og þess vegna rituð með litlum staf, nema þegar þeim er skeytt aftan við heiti þjóðar, lands, stofnunar eða fyrirtækis, til dæmis Rússlandskeisari. Myndin er teikning úr tímaritinu Haukur frá 1911 og sýnir Jón Halifax ræða við Rússlandskeisara.
- Íslensk málnefnd. 2016. Ritreglur. (Sótt 2.10.2017).
- Stafsetningarorðabókin (ritstj. Dóra Hafsteinsdóttir). 2006. Reykjavík: Íslensk málnefnd / JPV.
- Haukur, 7. árgangur 1910-1911, 13.-15. tölublað - Timarit.is. (Sótt 3.10.2017).