Er höfuðborgarsvæðið sérnafn líkt og Vesturland, sem ber að rita með stórum staf? Mér þætti það verra! Ég er sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu en heiti stofnunarinnar rita ég Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Er ég úti á túni í þessu?Höfuðborgarsvæði er landsvæði sem nær til höfuðborgar og næsta nágrennis hennar en er ekki endilega skýrt afmarkað. Á Íslandi eiga sjö sveitarfélög aðild að Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Hefð er fyrir því í íslensku að líta á höfuðborgarsvæðið sem samnafn en ekki sérnafn eða heiti og samnöfn eru að jafnaði rituð með litlum upphafsstaf eins og segir í ritreglum Íslenskrar málnefndar frá 2016 (sjá grein 1.3.2). Í grein 1.3.6.3 í sömu ritreglum er fjallað um að örnefni eigi sér oft samhljóða heiti, t.d. Eyri/eyri, Hóll/hóll. Þar segir síðan:
Lýsandi heiti sem eiga við aðeins einn stað má stundum túlka sem sérnafn. Því er valfrelsi í rithætti eftirtalinna orða: • norðurpóll/Norðurpóll, suðurpóll/Suðurpóll, norðurheimskaut/Norðurheimskaut, suðurheimskaut/Suðurheimskaut Athugið. Á sama hátt má hugsa sér að miðhálendi geti verið sérheiti (Miðhálendi) en mælt er með litlum staf.Þetta ákvæði í ritreglunum opnar hugsanlega á valkvæði í ritun orðsins höfuðborgarsvæði/Höfuðborgarsvæði sem er að ýmsu leyti svipað og orðið miðhálendi. Rétt er þó að benda á að mælt er í ritreglunum með ritun þess með litlum staf (miðhálendi). Einnig er skýr hefð um ritun orðsins höfuðborgarsvæði með lágstaf, meðal annars í viðurkenndum heimildum um stafsetningu. Í Málfarsbankanum stendur: „Orðið höfuðborgarsvæðið er ritað með litlum staf.“ Og í Stafsetningarorðabókinni (2006:276 undir uppflettiorðinu höfuðborg) er einnig tilgreind ritun með litlum staf: „höfuðborg -in -borgar; -borgir höfuðborgar|svæðið“. Heimildir:
- Íslensk málnefnd. 2016. Ritreglur. Ritreglur ÍM. (Sótt 29.09.2017).
- Málfarsbankinn (ritstj. Jóhannes B. Sigtryggsson). Sjá Málið. (Sótt 29.09.2017).
- Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Sjá SSH. (Sótt 29.09.2017).
- Stafsetningarorðabókin (ritstj. Dóra Hafsteinsdóttir). 2006. Reykjavík: Íslensk málnefnd / JPV.
- Sveitarfélög á Íslandi - Höfuðborgarsvæðið - Sveitarfélögin - Samband íslenskra sveitarfélaga. (Sótt 29.09.2017).
- File:Reykjavik, Iceland, OCT 2009.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 29.09.2017). Myndin er birt undir leyfinu Creative Commons Attribution 2.0 Generic license.