Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Geislun í umhverfi okkar er af ýmsu tagi og má flokka hana á marga vegu eins og rakið er til dæmis í svari eftir sömu höfunda við spurningunni Hvað er geislun og hvað eru til margar gerðir af henni? Þar er meðal annars fjallað um flokkun eftir því frá hvers konar efni eða efniseindum geislunin kemur. En einnig má að sjálfsögðu spyrja um uppruna eftir stöðum.
Þannig getum við til dæmis flokkað geislun eftir því hvort hún kemur frá jörðinni eða utan úr geimnum. Fyrri flokkinn mætti þá kalla jarðneska geislun. Í síðari flokkinn fellur meðal annars rafsegulgeislun utan úr geimnum, þar á meðal innrautt, sýnilegt og útfjólublátt ljós frá sólinni og frá fjarlægari stjörnum, en einnig útvarpsbylgjur, röntgen-geislun, gamma-geislun og jafnvel örbylgjugeislun sem má rekja aftur til upphafs alheimsins. Utan úr geimnum berast einnig svokallaðir geimgeislar sem eru orkuríkar agnir frá sprengistjörnum og einnig fiseindir frá svartholum. Um þessar mundir eru menn líka að byrja að nema þyngdarbylgjur frá geimnum en þær má líka kalla ákveðna tegund geislunar. Nóbelsverðlaunin 2017 voru veitt fyrir mælingar á slíkri geislun.
Kip Thorne, einn af þremur sem hlutu Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði 2017. Verðlaunin voru veitt fyrir mælingar á þyngdarbylgjum.
Þessi spurning fjallar hins vegar um jarðneska geislun, það er að segja geislun sem á uppruna sinn í eða á jörðinni. Fyrst ber þá að nefna að jörðin endurkastar sólarljósi sem við sjáum þegar við horfum á hana fyrir fótum okkar eða lítum á fjöllin. Þótt þetta ljós eigi ekki uppruna sinn á jörðinni þá berst það aftur frá henni út í geiminn og gerir jörðina sýnilega til dæmis frá geimflaugum, tunglinu og öðrum reikistjörnum sólkerfisins.
Jörðin og lífkerfi hennar drekka einnig í sig hluta sólarljóssins. Sú orka skilar sér að mestu leyti í varmamyndun sem á sinn þátt í varmageislun frá jörðinni. Jörðin er líka heitari en ískaldur geimurinn kringum hana og gefur líka þess vegna frá sér varmageislun sem er ein tegund rafsegulgeislunar, að mestu á innrauða tíðnisviðinu. Með hitamyndavélum getum við séð hvernig varmageislun hluta eykst með hitastigi þeirra. Geislavirk efni í iðrum jarðarinnar halda jörðinni heitri og um leið byggilegri fyrir lífverur margfalt lengur en ella væri.
Jörðin er sýnileg frá tunglinu.
Sumar lífverur, til dæmis eldflugur, svif og marglyttur, geta umbreytt efnaorku í sýnilega ljósgeislun. Slík geislun getur verið sjáanleg utan úr geimnum, til dæmis á gervitunglamyndum af jörðinni. Margs konar geislun frá jörðinni tengist auðvitað einnig umsvifum fólks, til dæmis raflýsing og útvarpsbylgjur.
Þannig má segja að ein tegund jarðneskrar geislunar — geislavirkni í iðrum jarðar — sé ein af forsendum lífs hér á jörðinni. Lífheimurinn sendir svo frá sér ýmsar gerðir jarðneskrar geislunar. Þetta svar fjallar því óneitanlega um mikilvæg fyrirbæri!
Myndir:
Þorsteinn Vilhjálmsson og Kristján Leósson. „Hvað er jarðnesk geislun?“ Vísindavefurinn, 11. október 2017, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74540.
Þorsteinn Vilhjálmsson og Kristján Leósson. (2017, 11. október). Hvað er jarðnesk geislun? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74540
Þorsteinn Vilhjálmsson og Kristján Leósson. „Hvað er jarðnesk geislun?“ Vísindavefurinn. 11. okt. 2017. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74540>.