Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvenær á að nota „mig“ og hvenær á að nota „mér“ með sagnorðum? (Til dæmis mig langar, mér finnst).
Flest sagnorð taka með sér nafnorð eða fornöfn, eitt eða fleiri, til að tákna þátttakendur í þeirri athöfn, atburði eða aðgerð sem sögnin lýsir. Mjög oft stendur eitt þessara nafnorða eða fornafna fyrir þann eða þá sem framkvæmir það sem í sögninni felst, og kemur þá oftast á undan sögninni. Í setningunni Guðrún las bókina er það Guðrún sem framkvæmir þá athöfn að lesa, og í setningunni Sveinn brosti er það Sveinn sem framkvæmir þá athöfn að brosa. Þess vegna er talað um nafnorðið eða fornafnið sem geranda í slíkum setningum. Hver sögn tekur aðeins með sér einn geranda og önnur nafnorð eða fornöfn í setningunni hafa því önnur merkingarleg hlutverk (eru til dæmis þolendur, þiggjendur og fleira).
Í setningunni Guðrún las bókina er það Guðrún sem framkvæmir þá athöfn að lesa. Þess vegna er talað um nafnorðið eða fornafnið sem geranda í slíkri setningu.
En ýmsar sagnir taka ekki með sér geranda vegna þess að þær lýsa ekki athöfn eða aðgerð, heldur tilfinningu, skynjun, upplifun eða einhverju slíku. Þannig er til dæmis með sagnir eins og kvíða, langa og finnast. Þessar sagnir taka allar með sér nafnorð eða fornafn sem táknar þann eða þá sem fær þá tilfinningu eða upplifir þá skynjun sem í sögninni felst. Í setningunni Þór kvíðir fyrir prófinu er það Þór sem fær kvíðatilfinningu, í setningunni Sigríði langar í súkkulaði er það Sigríður sem fyllist súkkulaðilöngun, og í setningunni Sigrúnu finnst maturinn góður er það Sigrún sem upplifir tiltekna skynjun á matnum (gott bragð). Þór, Sigríður og Sigrún eru ekki gerendur í þessum setningum vegna þess að þau aðhafast ekkert, framkvæma enga athöfn eða aðgerð. Það mætti fremur kalla þau skynjendur. Gerandi aðhefst eitthvað viljandi, skynjandi upplifir eitthvað án þess að hafa stjórn á því.
Gerandi er ævinlega í nefnifalli, en nafnorð og fornöfn sem gegna öðrum merkingarlegum hlutverkum en gerandahlutverkinu fá mismunandi föll eftir því með hvaða sögn þau standa. Engar einfaldar reglur gilda um það hvaða sagnir af þessu tagi taka hvaða fall. Þannig tekur kvíða nefnifall – Ég kvíði fyrir prófinu – en langa tekur þolfall – Mig langar í súkkulaði. Algengast er þó að sagnir sem tákna tilfinningu, skynjun eða upplifun taki með sér nafnorð eða fornafn í þágufalli – Mér finnst maturinn góður, Honum leiðist í skólanum, Henni líkar við alla, o.s.frv. Í nútímamáli er sterk tilhneiging til að þær sagnir af þessu tagi sem hafa tekið með sér nefnifall eða þolfall taki þágufall í staðinn. Þannig er algengt að sagt sé Mér kvíðir fyrir prófinu, Þeim hlakkar til jólanna, Honum langar í súkkulaði, Henni dreymdi illa, o.s.frv.
Ýmsar sagnir taka ekki með sér geranda vegna þess að þær lýsa ekki athöfn eða aðgerð, heldur tilfinningu, skynjun, upplifun eða einhverju slíku. Í setningunni Sigríði langar í súkkulaði er það Sigríður sem fyllist súkkulaðilöngun. Sigrún er ekki gerandi heldur frekar skynjandi.
Þessi breyting, sem hefur verið kölluð „þágufallssýki“ eða „þágufallshneigð“, er ekki ný af nálinni – rætur hennar má rekja að minnsta kosti til 19. aldar og jafnvel lengra aftur. Nýlegar rannsóknir sýna að notkun þágufalls í stað nefnifalls eða þolfalls með sögunum af þessu tagi er mjög algeng um allt land og breiðist smátt og smátt út. Það má færa rök að því að þetta sé skiljanleg og „eðlileg“ málbreyting – vegna þess að yfirgnæfandi meirihluti sagna sem tákna tilfinningu, skynjun eða upplifun tekur með sér þágufall er hvorki óvænt né óeðlilegt að þessar sagnir hafi áhrif á hinar sem taka nefnifall eða þolfall og eru miklu færri. Þrátt fyrir það er þessi málnotkun („þágufallssýki“ eða „þágufallshneigð“) ekki viðurkennd sem rétt mál í hinum óopinbera íslenska málstaðli sem til dæmis birtist í Málfarsbanka Árnastofnunar.
Heimildir:
Höskuldur Þráinsson, Þórhallur Eyþórsson, Ásta Svavarsdóttir og Þórunn Blöndal. „Fallmörkun.“ Í Höskuldur Þráinsson, Ásgrímur Angantýsson og Einar Freyr Sigurðsson (ritstj.): Tilbrigði í íslenskri setningagerð. II. Helstu niðurstöður – Tölfræðilegt yfirlit. Málvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík, 2015.
Eiríkur Rögnvaldsson. „Hvenær á að nota „mig“ og hvenær á að nota „mér“ með sagnorðum?“ Vísindavefurinn, 19. september 2017, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74384.
Eiríkur Rögnvaldsson. (2017, 19. september). Hvenær á að nota „mig“ og hvenær á að nota „mér“ með sagnorðum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74384
Eiríkur Rögnvaldsson. „Hvenær á að nota „mig“ og hvenær á að nota „mér“ með sagnorðum?“ Vísindavefurinn. 19. sep. 2017. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74384>.