Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þegar fita safnast í lifrarfrumurnar er það kallað fitulifur. Fitulifur er oftast meinlaus og flokkast þá ekki sem sjúkdómur en hún getur einnig verið merki um alvarlegan sjúkdóm sem leitt getur til lifrarbilunar. Þetta fer fyrst og fremst eftir því hver orsökin fyrir fitusöfnuninni er. Algengustu orsakir eru mikil áfengisneysla, offita eða sykursýki. Aðrar orsakir geta verið næringarskortur, berklar, þarmaaðgerðir vegna offitu, eiturefni eða lyf.
Við ofnotkun áfengis er mikið álag á lifrina vegna bruna alkóhólsins þar. Ef slíkt álag stendur lengi fer að safnast fita í lifrarfrumurnar og að lokum, venjulega eftir áratugalanga ofdrykkju, getur lifrin skemmst og orðið að því sem kallað er skorpulifur. Fitulifur hjá áfengissjúklingum lagast ef þeir hætta að drekka en þegar skorpulifur hefur náð að myndast eru orðnar varanlegar skemmdir á lifrinni. Áður fyrr var talið að lifrarskemmdir vegna ofdrykkju stöfuðu að talsverðu leyti af næringarskorti en nú er vitað að ekki þarf næringarskort til þó svo að þetta tvennt sé hættulegt saman. Næringarskortur einn og sér, sérstaklega prótínskortur, getur valdið fitulifur. Þetta má sjá á myndum sem flestir kannast við af vannærðum börnum með útþandan kvið, til dæmis í Afríku. Kviðurinn er útþaninn vegna þess að lifrin er stækkuð, eins og fitulifur er oftast, en þarna kemur einnig til vökvasöfnun í kviðarholi. Rétt er að taka fram að í alvarlegum næringarskorti er lifrin miklu meira stækkuð en í öðrum tilfellum af fitulifur.
Þegar fita safnast í lifrarfrumurnar er það kallað fitulifur.
Af þeim sem ekki ofnota áfengi og eru með fitulifur eru flestir of feitir (líkamsþyngd meira en 10% yfir kjörþyngd). Offitu fylgir oft fitusöfnun í lifur en slík fitulifur er tiltölulega meinlaus og leiðir sjaldan til lifrarskemmda. Til eru rannsóknir sem sýna að 20-40% þeirra sem eru mikið of feitir fá fitulifur. Við megrun minnkar fitan í lifrinni eins og annars staðar í líkamanum. Sykursjúkir fá stundum fitulifur en talið er að það sé algengast hjá þeim sem hafa ekki nógu góða stjórn á sykursýkinni eða í sérstaklega erfiðum sjúkdómstilfellum. Fitusöfnun í lifur sykursjúkra lagast oftast eða hverfur þegar sjúkdómnum er haldið í skefjum með mataræði, töflum eða insúlínsprautum.
Nokkur eiturefni, sem flest flokkast undir lífræn leysiefni (til dæmis blettahreinsirinn tetraklórkolefni og gulur fosfór), og sum lyf (til dæmis barksterar, tetrasýklín, valpróinsýra og metótrexat) geta valdið fitulifur og í versta falli varanlegum lifrarskemmdum. Eitt af því sem gerist við A-vítamíneitrun er fitusöfnun í lifur.
Að lokum má geta þess að til er sjaldgæfur sjúkdómur á síðasta hluta meðgöngu sem lýsir sér aðallega með fitulifur. Fitulifur á meðgöngu tengist stundum meðgöngueitrun og stundum ekki. Þetta er alvarlegur sjúkdómur sem getur jafnvel verið lífshættulegur en þegar allt fer vel jafnar lifrin sig að fullu. Ekki er talin aukin hætta á að kona sem fær fitulifur á meðgöngu fái hana aftur á næstu meðgöngu.
Ekki er vitað hvers vegna sumir fá fitulifur en aðrir ekki. Fitulifur finnst oft fyrir tilviljun við læknisskoðun sem lifrarstækkun eða brengluð lifrarpróf (hækkun lifrarensýma í blóði). Ómskoðun og sneiðmyndataka af lifur geta styrkt þá greiningu en ekki er hægt að staðfesta hana nema taka vefjasýni úr lifrinni með nál.
Fitulifur er oftast meinlaus og krefst sjaldan meðferðar en það fer þó eftir því hver orsökin er. Þeir sem eru með fitulifur ættu að forðast áfengi, megrast ef þeir eru of feitir, hafa góða stjórn á sykursýki ef hún er til staðar og forðast efni og lyf sem eru eitruð fyrir lifrina.
Mynd:
Magnús Jóhannsson. „Hvað er feit lifur og af hverju stafar hún?“ Vísindavefurinn, 28. desember 2017, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74353.
Magnús Jóhannsson. (2017, 28. desember). Hvað er feit lifur og af hverju stafar hún? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74353
Magnús Jóhannsson. „Hvað er feit lifur og af hverju stafar hún?“ Vísindavefurinn. 28. des. 2017. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74353>.