Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getur þú sagt mér um Kveðjusinfóníuna eftir Joseph Haydn?

Árni Heimir Ingólfsson

Ein merkasta sinfónía Josephs Haydns (1732-1809) er sú nr. 45 í fís-moll, sem kölluð er Kveðjusinfónían. Um tilurð hennar er óvenjumargt vitað enda liggur áhugaverð saga þar að baki. Það var venja Nikulásar Esterházy prins, sem var vinnuveitandi Haydns, að dveljast í sveitahöllinni í Esterháza yfir sumarmánuðina en kalla hirð sína aftur til Eisenstadt að hausti. Á síðarnefnda staðnum bjuggu fjölskyldur starfsmanna og aðeins þeir sem hæst voru settir fengu að taka eiginkonur sínar með í sveitina. Sumarið 1772 brá svo við að Nikulás prins var tregur til heimferðar og þegar biðlund starfsmanna var á þrotum báðu þeir Haydn að koma á framfæri óánægju þeirra með þróun mála. Það gerði hann með óvenjulegum hætti því sinfóníunni lýkur þannig að hljóðfæraleikarar rísa úr sætum hver á fætur öðrum og ganga á brott þar til aðeins tveir fiðluleikarar eru eftir. Skemmst er frá því að segja að tónsmíðin hafði tilætluð áhrif. Innan tveggja vikna hafði hirðin fært sig um set rétt eins og að var stefnt.

Við lok Kveðjusinfóníunnar tínast hljóðfæraleikararnir af sviðinu einn af öðrum þar til einungis eru tveir fiðluleikarar eftir.

Kveðjusinfónían er stormasamt verk og margt við hana er óvenjulegt annað en lokataktarnir. Valið á tóntegund er til dæmis án hliðstæðu; ekki er vitað um nokkra aðra sinfóníu í fís-moll frá 18. öld. Hún var ein þeirra tóntegunda sem ekki sátu vel í ójafnri stillingu – sem enn tíðkaðist víða – og kannski hefur Haydn þótt það hæfa vel svo snögglyndri tónlist. Kveðjusinfónían er í fjórum þáttum en þó myndar framvindan eina heild. Verkið hefst í angist og reiði (í moll) en því lýkur í birtu og sátt (í dúr). Haydn er að þessu leyti nokkuð á undan sinni samtíð því slíkt þróunarferli – úr sorg í gleði, úr myrkri í ljós – einkennir fremur sinfóníur 19. aldar, til dæmis Örlagasinfóníu Beethovens.

Upphafskaflinn er einn sá dramatískasti sem Haydn samdi. Fiðlutónarnir eru næstum ruddalegir á köflum og hrynurinn er óstöðugur, því að sífellt er leikið á móti slaginu. Þá fer Haydn ótroðna slóð með því að sneiða hjá seinna aðalstefi þáttarins; einmitt þegar að því er komið samkvæmt lögmálum sónötuformsins breytist dúr í moll og hendingin sem vænst var lætur ekki á sér kræla. Í framsögu þáttarins heldur hann sig nær eingöngu við moll-hljóma og því verður stemningin enn dekkri en ella. Þegar ljúft stef hljómar loks um miðbikið er það eins og draumsýn, ekki hluti af eiginlegri framvindu þáttarins.

Lokakafli sinfóníunnar skiptist í tvennt. Fyrst hljómar hratt og dramatískt Presto en því næst hinn eiginlegi kveðjuþáttur þar sem hljóðfæraleikarar hverfa á braut hver á eftir öðrum. Hér fær tónlistin í fyrsta sinn friðsælt yfirbragð. Fyrst eru það blásarar sem láta sig hverfa (óbó og horn) en síðan strengir, dýpstu hljóðfærin fyrst en þau hæstu síðast. Í blíðum fiðluhendingum lokataktanna losnar um þá spennu sem kraumað hefur í verkinu allt frá fyrsta tóni.

Mynd:


Þetta svar er fengið úr bókinni Saga tónlistarinnar sem Forlagið gaf út árið 2016 og birt með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

Höfundur

Árni Heimir Ingólfsson

tónlistarfræðingur

Útgáfudagur

24.8.2018

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Árni Heimir Ingólfsson. „Hvað getur þú sagt mér um Kveðjusinfóníuna eftir Joseph Haydn?“ Vísindavefurinn, 24. ágúst 2018, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74324.

Árni Heimir Ingólfsson. (2018, 24. ágúst). Hvað getur þú sagt mér um Kveðjusinfóníuna eftir Joseph Haydn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74324

Árni Heimir Ingólfsson. „Hvað getur þú sagt mér um Kveðjusinfóníuna eftir Joseph Haydn?“ Vísindavefurinn. 24. ágú. 2018. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74324>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getur þú sagt mér um Kveðjusinfóníuna eftir Joseph Haydn?
Ein merkasta sinfónía Josephs Haydns (1732-1809) er sú nr. 45 í fís-moll, sem kölluð er Kveðjusinfónían. Um tilurð hennar er óvenjumargt vitað enda liggur áhugaverð saga þar að baki. Það var venja Nikulásar Esterházy prins, sem var vinnuveitandi Haydns, að dveljast í sveitahöllinni í Esterháza yfir sumarmánuðina en kalla hirð sína aftur til Eisenstadt að hausti. Á síðarnefnda staðnum bjuggu fjölskyldur starfsmanna og aðeins þeir sem hæst voru settir fengu að taka eiginkonur sínar með í sveitina. Sumarið 1772 brá svo við að Nikulás prins var tregur til heimferðar og þegar biðlund starfsmanna var á þrotum báðu þeir Haydn að koma á framfæri óánægju þeirra með þróun mála. Það gerði hann með óvenjulegum hætti því sinfóníunni lýkur þannig að hljóðfæraleikarar rísa úr sætum hver á fætur öðrum og ganga á brott þar til aðeins tveir fiðluleikarar eru eftir. Skemmst er frá því að segja að tónsmíðin hafði tilætluð áhrif. Innan tveggja vikna hafði hirðin fært sig um set rétt eins og að var stefnt.

Við lok Kveðjusinfóníunnar tínast hljóðfæraleikararnir af sviðinu einn af öðrum þar til einungis eru tveir fiðluleikarar eftir.

Kveðjusinfónían er stormasamt verk og margt við hana er óvenjulegt annað en lokataktarnir. Valið á tóntegund er til dæmis án hliðstæðu; ekki er vitað um nokkra aðra sinfóníu í fís-moll frá 18. öld. Hún var ein þeirra tóntegunda sem ekki sátu vel í ójafnri stillingu – sem enn tíðkaðist víða – og kannski hefur Haydn þótt það hæfa vel svo snögglyndri tónlist. Kveðjusinfónían er í fjórum þáttum en þó myndar framvindan eina heild. Verkið hefst í angist og reiði (í moll) en því lýkur í birtu og sátt (í dúr). Haydn er að þessu leyti nokkuð á undan sinni samtíð því slíkt þróunarferli – úr sorg í gleði, úr myrkri í ljós – einkennir fremur sinfóníur 19. aldar, til dæmis Örlagasinfóníu Beethovens.

Upphafskaflinn er einn sá dramatískasti sem Haydn samdi. Fiðlutónarnir eru næstum ruddalegir á köflum og hrynurinn er óstöðugur, því að sífellt er leikið á móti slaginu. Þá fer Haydn ótroðna slóð með því að sneiða hjá seinna aðalstefi þáttarins; einmitt þegar að því er komið samkvæmt lögmálum sónötuformsins breytist dúr í moll og hendingin sem vænst var lætur ekki á sér kræla. Í framsögu þáttarins heldur hann sig nær eingöngu við moll-hljóma og því verður stemningin enn dekkri en ella. Þegar ljúft stef hljómar loks um miðbikið er það eins og draumsýn, ekki hluti af eiginlegri framvindu þáttarins.

Lokakafli sinfóníunnar skiptist í tvennt. Fyrst hljómar hratt og dramatískt Presto en því næst hinn eiginlegi kveðjuþáttur þar sem hljóðfæraleikarar hverfa á braut hver á eftir öðrum. Hér fær tónlistin í fyrsta sinn friðsælt yfirbragð. Fyrst eru það blásarar sem láta sig hverfa (óbó og horn) en síðan strengir, dýpstu hljóðfærin fyrst en þau hæstu síðast. Í blíðum fiðluhendingum lokataktanna losnar um þá spennu sem kraumað hefur í verkinu allt frá fyrsta tóni.

Mynd:


Þetta svar er fengið úr bókinni Saga tónlistarinnar sem Forlagið gaf út árið 2016 og birt með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

...