Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í fréttum undanfarið hefur verið sagt frá hellinum á Lyngdalsheiði, spurningin er, hvernig varð hellirinn til?
Sennilega er hér átt við Laugarvatnshelli sem verið hefur í fréttum nýlega (2017); hann telst vera af mönnum gerður, grafinn í móberg. Um hella almennt á þessu svæði birtist grein í Morgunblaðinu 10. janúar 1999 eftir Vilmund Kristjánsson: Hellarnir á Lyngdalsheiði.[1] Þar er stuttlega lýst sex hellum sem finna má nálægt gamla veginum milli Gjábakka og Laugarvatns og upprunalega var nefndur Kóngsvegur því hann var lagður í tilefni af komu Friðriks VIII Danakóngs sumarið 1907. Hellarnir eru, taldir frá norðri til suðurs, Lambhellir, Gjábakkahellir, Tvíbotni, Vegkantshellir, Trinton og Laugarvatnshellir. Allir nema hinn síðastnefndi eru hraunhellar[2] en Laugarvatnshellir er talinn vera manngerður[3].
Laugarvatnshellir er manngerður hellir grafinn í móberg.
Flestir hraunhellar eru pípulaga rásir sem bráðið hraun streymdi eftir – fræg dæmi eru Surtshellir og Raufarhólshellir; hellirinn Tvíbotni er af því tagi, 310 m langur. Trinton er annarrar gerðar, hraundrýli[4] – hornito á máli eldfjallafræðinnar. Þetta eru nokkurs konar strompar eða strýtur í kringum göt í þaki hraunrása. Hraundrýli myndast við það að lofttegundir, sem losna úr bráðinni, streyma út um gatið með miklum hraða og bera með sér hraunflyksur sem límast í kringum loftrásina. Kunn dæmi nálægt Reykjavík eru Tröllabörn í Lækjarbotnum.
Um Laugarvatnshelli segir svo í Wikipediu[5]:
Laugarvatnshellar eru manngerðir móbergshellar í Reyðarbarmi á Laugarvatnsvöllum, miðja leið milli Þingvalla og Laugarvatns. Hellarnir voru tveir, annar fjögurra metra breiður og 12 metra langur, en hinn álíka langur en mjórri. Hefur skilrúm milli þeirra nú hrunið niður. Hellarnir eru þekktir fyrir það að búið var í þeim í byrjun 20. aldar. Á fyrri öldum voru þeir notaðir sem sæluhús. Mikið er um veggjakrot í móberginu á hellisveggjum og utan við hellismunnana, nöfn, fangamörk, ártöl, bílnúmer o.fl. Ungmennafélagið Laugardælir hefur í samvinnu við Vegagerðina reist upplýsingaskilti við hellana, þar sem saga þeirra er tíunduð.
Sennilegt er að vatn hafi í upphafi, kannski í ísaldarlok, grafið einhverja hellisskúta í móbergið þar sem Laugarvatnshellar eru nú, og menn síðan stækkað þá til að veita skjól mönnum og skepnum. Margir „manngerðir hellar“ á Suðurlandi munu vera þannig til komnir, meðal annars bjó Jón Steingrímsson, síðar „eldprestur,“ einn vetur í helli í Mýrdal og notaði tímann til að bæta hellinn og stækka hann auk þess að læra þýsku.
Að lokum má nefna að vorið 2017 voru Laugarvatnshellar endurgerður í sem næst þeirri mynd sem þeir voru þegar þar var búið og eru nú til sýnis fyrir gesti[6].
Tilvísanir:
Sigurður Steinþórsson. „Hvernig varð Laugarvatnshellir til?“ Vísindavefurinn, 19. júní 2017, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74127.
Sigurður Steinþórsson. (2017, 19. júní). Hvernig varð Laugarvatnshellir til? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74127
Sigurður Steinþórsson. „Hvernig varð Laugarvatnshellir til?“ Vísindavefurinn. 19. jún. 2017. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74127>.