Hvert er þjóðardýr Íslands og af hverju?Þjóðir heims eiga sér öll einhver þjóðartákn, ýmist lögformleg eða óformleg. Þessi tákn geta til dæmis endurspeglað eða vísað til sjálfsmyndar þjóðarinnar, sögu hennar, menningar eða náttúru. Þjóðartáknin eru til að mynda fáni, þjóðsöngur, skjaldarmerki, litir, blóm eða það sem hér er spurt um - þjóðardýr. Það er misjafnt hvort þau dýr sem talin eru tákn þjóða hafi fengið formlega útnefningu sem slík eða ekki. Sem dæmi þá kemur fram á heimasíðu ríkisstjórnar Kanada að árið 1975 hafi bjórinn (Castor canadensis) verið formlega útnefndur sem eitt af táknum Kanada en hann hafði um langa hríð verið óopinbert þjóðartákn landsins. Í mörgum öðrum tilfellum er ekki um opinbera tilnefningu að ræða, dýrið sem almennt er litið á sem þjóðardýr getur til dæmis verið í skjaldarmerki þjóðarinnar eða verið einkennisdýr í fánu landsins án þess að það hafi formlega verið útnefnt sem þjóðartákn. Ljónið (Panthera leo) er eitt vinsælasta þjóðardýrið enda er það tákn um hugrekki og styrk. Litlu virðist skipta hvort ljón séu hluti af fánu þeirra landa sem telja það sem sitt þjóðardýr; til að mynda er ljón þjóðardýr Englands þótt ljón hafi aldrei lifað villt þar í landi. Á Netinu má finna margar síður sem telja upp þjóðardýr ýmissa landa, til dæmis á Wikipediu. Aðrar síður má finna með því að setja inn í leitarvélar leitarorð eins og „national animals“. En rétt er að ítreka að upplýsingunum verður að taka með ákveðnum fyrirvara, ekki er endilega gerður greinarmunur á formlega útnefndum þjóðardýrum og óformlegum auk þess sem túlkun á hvað telst þjóðardýr getur verið nokkuð á reiki. Í þessu sambandi má nefna að ýmsar síður halda því fram að fálki (Falco rusticolus) sé þjóðardýr Íslendinga. Að því best er vitað eiga Íslendingar hins vegar ekkert formlegt þjóðardýr. Fyrir nokkrum árum var fyrirtækið Maskína fengið til að kanna hug landsmanna til þjóðardýrs. Könnunin var gerð meðal 5.000 Íslendinga sem valdir voru með slembiúrtaki úr Þjóðskrá. Þar kom fram að Íslendingar vilja útselinn sem þjóðardýr, enda talinn geðþekkur, harðger og með nokkuð gott skopskyn. Í öðru sæti, en langt fyrir aftan útselinn í vinsældum, kom melrakkinn, en Melrakkasetur Íslands hefur talað fyrir því að hann verði gerður að þjóðardýri Íslendinga. Heimildir og mynd:
- Stjórnarráðið | Þjóðartákn. (Skoðað 17. 7. 2017).
- List of national animals - Wikipedia. (Skoðað 17. 7. 2017).
- A Complete List of National Animals from Around the World - AnimalSake. (Skoðað 17. 7. 2017).
- Íslendingar vilja útsel sem þjóðardýr - Maskína. (Skoðað 17. 7. 2017).
- Mynd: Royal Coat of Arms of the United Kingdom (Both Realms).svg - Wikimedia Commons. (Sótt 18. 7. 2017).
- File:Castor canadensis.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 14.08.2017).