Kvennaframboð (1982-1986) og Kvennalisti (1983-1999)
Kvennaframboð og Kvennalisti voru kvennahreyfingar sem vildu vinna að bættri stöðu kvenna. Þær vildu breyta hugarfari og gildismati í samfélaginu, þær vildu gera konur sýnilegar, koma fleiri konum til valda og vera þar sem ráðum var ráðið. Þær vildu óhefðbundin vinnubrögð sem endurspegluðust í valddreifingu, formannsleysi og kerfisbundinni útskiptingu á fulltrúum þeirra. Konunum tókst það. Sumarið 1981 funduðu 50-70 konur reglulega um þá hugmynd að bjóða fram Kvennaframboð í sveitarstjórnarkosningum 1982 vegna óásættanlegrar stöðu kvenna. Launamunur kynjanna var mikill og lítil áhersla á velferðarmál. Um 65% giftra kvenna unnu utan heimilis en leik- og grunnskólakerfið miðaðist við að konur væru heimavinnandi húsmæður. Aðeins 8% barna hafði aðgang að heilsdagsvistun, skóladagur var stuttur og sundurslitinn, skólar tví- og þrísetnir og engar skólamáltíðir. Lítill pólitískur vilji var fyrir því að auðvelda konum vinnu utan heimilis á sama tíma og vaxandi þörf var fyrir vinnuframlag þeirra. Konur voru lítt sýnilegar í stjórnmálum. Þær voru 6% kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum, þrjár konur sátu á Alþingi og engin kona í ríkisstjórn. Valdaleysi kvenna var algjört. Pólitískt lag var því fyrir framboð kvenna. Tólf þeirra kvenna sem funduðu sumarið 1981 höfðu trú á mikilvægi þess að fylgja hugmyndinni eftir og boðuðu til borgarafundar hinn 14. nóvember 1981. Yfir 600 konur og nokkrir karlar mættu á fundinn, húsfyllir varð og urðu margir frá að hverfa. Hugmyndinni var tekið fagnandi og boltinn fór að rúlla. Næstu vikur og mánuðir fóru í hópvinnu um hugmyndafræði og stefnu, stilla upp lista, undirbúa kosningafundi, þar á meðal mikla kosningahátíð sem haldin var í Laugardalshöll. Gleði, kraftur og hugmyndaauðgi réð alls staðar ríkjum. Ári síðar eða 1983 var Kvennalisti stofnaður til að bjóða fram til Alþingis.Hugmyndafræði og stefnumál
Hugmyndafræðin byggði á menningarfemínisma sem byggir á að konur eigi sameiginlegan reynsluheim á grundvelli kynferðis, uppeldis, rótgróinna hlutverka og vinnu kvenna á heimilum. Jafnframt helgast menningarfemínisminn af reynslu kvenna af því að ala börn, fæða þau og klæða og helga sig umönnunarstörfum. Kvennamenningin sé arfur sem borist hafi frá kynslóð til kynslóðar. Kvennaframboðs- og Kvennalistakonur höfnuðu hægri og vinstri skilgreiningu og sögðust vera þriðja víddin. Konurnar voru róttækir femínistar sem litu svo á að samfélagsgerðin byggði á feðraveldi og konum sé mismunað á grundvelli kyns. Kvennamenningarnálgunin gerði ráð fyrir að konur samsömuðu sig öðrum konum óháð stétt og uppruna og það væri fleira sem sameinaði þær en sundraði. Marxískir femínistar, meðal annars rauðsokkur, töldu hins vegar að undirokun kvenna væri afleiðing af stéttakúgun en slagorð þeirra var „Engin kvennabarátta án stéttabaráttu, engin stéttabarátta án kvennabaráttu.“Skipulag
Sérstaða framboðanna fólst einnig í vinnubrögðum og skipulagi. Kvennaframboðskonur nýttu hugmyndir rauðsokka um flatt grasrótarskipulag, mikla valddreifingu og beint lýðræði, engan formann og hópstarf. Áhersla var lögð á að ræða málin þar til komist var að sameiginlegri niðurstöðu „concensus“ í stað þess að greiða atkvæði. Hugmyndum um forystu og vald var hafnað. Valddreifingarhugmyndin og grasrótarstarfið byggðist á að engin mætti vera of leiðandi eða áberandi. Umræðan um vald var jafnan í þá veru að því ætti að dreifa og mikilvægt væri að fá vald til áhrifa og framkvæmda en ekki vald yfir öðrum. Útskipti voru regluleg. Konum var skipt út á fjögurra til sex ára fresti á Alþingi og í sveitarstjórnum, enn örar í nefndum og ráðum, auk þess sem konur skiptust á að koma fram í fjölmiðlum og mæta á fundi. Útskiptin voru hugsuð sem mikilvægt tæki til að skiptast á að gegna ábyrgðarstörfum, dreifa valdi og þjálfa konur í stjórnmálastörfum, sýna mörg andlit og búa til marga sérfræðinga með reynslu og þekkingu.Árangur og áhrif
Ný sýn fólst í því að skoða stjórnmálin út frá sjónarhóli kvenna og að reynsla og menning þeirra væri metin sem stefnumótandi afl í þjóðfélaginu. Framboðunum tókst að koma stefnumálum sínum af jaðrinum og inn á miðjuna. Kvennalistakonur opnuðu konum leiðina að hátölurum samfélagsins. Þær gerbreyttu umræðunni varanlega og komu málum á dagskrá sem höfðu legið í þagnargildi bæði á Alþingi og í sveitarstjórnum. Má þar meðal annars nefna klám, kynferðislegt ofbeldi sem og annað ofbeldi gegn konum og börnum.
Kvennalistinn átti frumkvæði að mótmælum gegn háu vöruverði, hinn 8. mars 1984, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.