Hvað er ger (það sem er notað í alls konar bakstur)?Það sem nefnt er bökunarger í daglegu tali er í raun lifandi einfruma sveppur af tegundinni Saccharomyces cerevisiae. Þetta er mjög harðger sveppur sem er víða í náttúrunni þar sem sykur er að finna, sér í lagi á þroskuðum ávöxtum. Sveppurinn hefur verið notaðaður öldum saman í bakstur, einnig í bjórgerð og til þess búa til vín og viskí svo dæmi séu tekin. Sveppurinn Saccharomyces cerevisiae hefur verið mikið rannsakaður enda er hann svonefnd tilraunalífvera (e. model organism) líkt og til að mynda ávaxtaflugan. Tilraunalífverur eru tegundir sem auðvelt er að rækta á rannsóknarstofum og búa yfir einhverjum eiginleikum sem gera þær heppilegar til rannsókna. Gersveppir eru hringlaga eða egglaga og 4-10µm í þvermál. Þeir hafa tvenns konar lífsferla, annars vegar einlitna og hins vegar tvílitna. Einlitna lífsferillinn felur í sér kynlausa skiptingu með knappskotum og frumuvexti. Þá myndast útskot á frumunni sem vex þar til að hún verður jafn stór og móðurfruman. Á sama tíma tvöfaldar fruman erfðaefni sitt með ferli sem að kallast mítósa. Helmingur erfðaefnisins fer yfir í knappskotið en hinn helmingurinn verður eftir í móðurfrumunni. Knappskotið losnar síðan frá móðurfrumunni. Tvílitna formið felur í sér meiósuskiptingu en lokaafurð hennar eru fjögur einlitna gró, sem geta síðan stundað kynæxlun og myndað tvílitna frumu. Einlitna form gersveppsins þolir illa óhagstæð vaxtarskilyrði og því er tvílitna formið æskilegra þegar skilyrði eru slæm.

Við gerjun myndast loftbólur í deiginu og það þenst út. Við baksturinn deyr gerið en loftrýmið verður að hluta til eftir og þannig verður brauðið svampkennt eða „létt“.
- Harvey, Richard A. o.fl. 2012. Microbiology 3. Útg. Lippincott William & Wilkins.
- Herskowitz, I. 1988. “Life cycle of the budding yeast Saccharomyces cerevisiae”. Microbiol Rev. 52(4): 536–553.
- Csuk og Glaenzer. 1991. “Baker's yeast mediated transformations in organic chemistry”. Chem. Rev. 91 (1): 49–97.
- Volker Müller. 2001. Bacterial Fermentation. Encyclopedia of Life Sciences.
- Fyrri mynd: Saccharomyces cerevisiae SEM.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 16.10.2017).
- Seinni mynd: Free photo: Bread, Baguette, France, Cut, Baked - Free Image on Pixabay. (Sótt 13. 10.2017).