Hvers vegna veikist krónan við útstreymi gjaldeyris (aflandskróna)?Í svari Þórólfs Matthíassonar við spurningunni: Hvers vegna styrkist krónan við innflæði gjaldeyris og aukningu gjaldeyrisforða Seðlabankans? kemur eftirfarandi fram:
Gjaldeyrir kemur inn í landið þegar erlendir aðilar kaupa vöru eða þjónustu af innlendum aðilum. Hinir erlendu aðilar greiða með gjaldeyri. Íslensku söluaðilarnir greiða starfsfólki sínu og birgjum í íslenskum krónum. Þeir snúa sér því til viðskiptabanka síns með ósk um að skipta erlenda gjaldeyrinum í íslenskar krónur. Innflutningsfyrirtæki sem kaupa erlendan varning af erlendum birgjum snúa sér einnig til viðskiptabanka sinna og falast eftir gjaldeyri í skiptum fyrir íslenskar krónur. Ef innstreymi gjaldeyris er í samræmi við útstreymi vegna innflutnings ríkir jafnvægi á gjaldeyrismarkaðnum og gengi krónunnar helst stöðugt. Ef sú staða skapast hins vegar að innstreymi er meira en útstreymið kemur að því að viðskiptabankarnir geta ekki orðið við óskum útflytjenda um að kaupa af þeim krónur vegna þess að bankarnir hafa ekki lausafé. Þeir geta orðið sér út um lausafé með því að taka lán hjá Seðlabankanum eða hjá öðrum fjármálastofnunum. Lánsfé er dýrt. Þess vegna verða viðskiptabankarnir að hækka verðið á íslensku krónunum, það er að segja viðskiptabankarnir eru nauðbeygðir til að fækka þeim krónum sem þeir borga útflytjendum fyrir hverja evru og hvern dal. Þannig fer saman aukið innflæði gjaldeyris og styrking krónunnar.Það sem gerist við útstreymi gjaldeyris er það sama og við innstreymi nema með neikvæðum formerkjum.
- Þórólfur Matthíasson. „Hvers vegna styrkist krónan við innflæði gjaldeyris og aukningu gjaldeyrisforða Seðlabankans?“ Vísindavefurinn, 24. janúar 2017. (Sótt 13.03.2017).
- Currency | Lewis Adams | Flickr. Myndrétthafi er Lewis Adams. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 14.03.2017).