Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Níunda sinfónía Ludwigs van Beethoven (1770–1827) er eitt meginverk tónlistarsögunnar. Hún var samin seint á ævi hans, á árunum 1822-1824 og er að mörgu leyti tímamótaverk þótt ekki hafi allar hugmyndir tónskáldsins verið splunkunýjar.
Ludwig van Beethoven (1770–1827).
Upphaf sinfóníunnar er dularfullt og órætt. Maður greinir vart hvenær verkið hefst í raun og veru; titrandi fimmundir í strengjum hljóma eins og ómótað kaos sem smám saman tekur á sig form. Aldrei fyrr hafði sinfónía byrjað svo veikt eða verið svo lengi að vakna til lífsins. Síðar varð alvanalegt að rómantísk tónskáld byrjuðu verk sín með þessum hætti og sóttu þau þá fyrirmynd sína hingað, til dæmis Gustav Mahler (1860-1911) í fyrstu sinfóníu sinni og Anton Bruckner (1824-1896) í fjórðu og áttundu sinfóníum sínum. Skyndilega brýst meginstefið fram, fullmótað og alvöruþrungið. Síðar í kaflanum (við upphaf ítrekunarhlutans) hljóma upphafstónar á nýja leik en nú leiknir fortissimo af allri hljómsveitinni, með dynjandi pákum og í dúr en ekki moll. Breski tónlistarfræðingurinn Donald Francis Tovey (1875-1940) segir að þetta augnablik opinberi „hinn gífurlega mátt upphafstónanna. Nú erum við stödd í þeim miðjum, og í stað fjarlægrar stjörnuþoku sjáum við himnana loga“.
Í tónsmíðum þar sem hægi kaflinn var óvenjulangur, eins og hér er raunin, setti Beethoven hann stundum í þriðja sæti og lét hraðann scherzo-þátt koma beint í kjölfar þess fyrsta. Þetta scherzo þýtur áfram á ógnarhraða en hefur um leið yfir sér strangan blæ. Þriðju þáttur sinfóníunnar er djúphugull og ljóðrænn. Formgerðin er svokallað tvöfalt tilbrigðaform, þar sem tvö meginstef eru sett fram og síðan hljóma tilbrigði hvort þeirra til skiptis. Haydn (1732-1809) hafði notað það alloft en annars var Beethoven eitt fárra tónskálda sem gaf því verulegan gaum.
Lokakaflinn, Óðurinn til gleðinnar, er óvenjulegasti þáttur verksins. Hann hefst með ómstríðum hljómi sem rýfur friðsældina sem áður ríkti, hljómi sem Richard Wagner (1813-1883) kallaði Schreckensfanfare, hryllingsþytinn. Með honum gefur Beethoven til kynna að tónlistin sé komin í öngstræti, að upp sé komið vandamál sem krefjist lausnar með einum eða öðrum hætti. Um skeið er eins og Beethoven þreifi sig áfram, án árangurs þó. Hljómsveitin leikur stef úr fyrri þáttum verksins en í hvert sinn setja selló og kontrabassi strik í reikninginn. Þau „afþakka“ hverja minninguna eftir aðra með hendingum sem fremur minna á söngles en hljóðfæramúsík, eins konar ópera án texta. Lausn þessarar „kreppu“ kemur þegar tréblásarar leika upphaf að nýju stefi sem síðan hljómar í strengjum. Þetta er „gleðistefið“ svokallaða sem Beethoven notar nú sem efnivið í tilbrigði – alls verða þau níu áður en yfir lýkur.
Eftir þrjú hljómsveitartilbrigði fer allt í háaloft enn eina ferðina. Hryllingsþyturinn hljómar á ný og er ómstríðari en áður, samsettur úr tveimur hljómum sem rekast á og útkoman er að sama skapi sársaukafull. Það er eins og boðskapur hins nýja stefs sé enn ekki fyllilega ljós. Textann vantar, tónlistin ein megnar ekki að tjá allt sem Beethoven býr í brjósti á þessari stundu. Þá stígur fram einsöngsbassi sem leysir verkið úr sjálfheldu með því að syngja frumtexta tónskáldsins, inngangorð að kvæði Schillers:
O Freund, nich diese Töne!
Æ, vinir, ekki þessa tóna!
Sondern laßt uns angenehmere anstimmen
Syngjum heldur ljúfa söngva
Und freundenvollere!
og gleðilegri!
Svarið við þessari áskorun er einmitt Óðurinn til gleðinnar, sem hljómar í allri sinni dýrð í flutningi kórsins:
Freude, schöner Götterfunken,
Fagra gleði, guða logi,
Tochter aus Elysium!
Gimlis dóttir, heill sé þér!
Wir betreten feuertrunken,
í þinn hásal hrifnir eldi,
Himmlische, dein Heiligtum!
heilög gyðja, komum vér.
Deine Zauber binden wieder
Þínir blíðu töfrar tengja,
was die Mode streng geteilt,
tízkan meðan sundur slær;
alle Menschen werden Brüder
allir bræður aftur verða
wo dein sanfter Flügel weilt.
yndisvængjum þínum nær.
(Matthías Jochumsson þýddi)
Nú gengur allt eins og í sögu. Við taka önnur sex tilbrigði um gleðistefið, þar af eitt í tyrkneskum stíl þar sem tenór syngur með bassatrommum og þríhorni. Slík tónlist hafði verið eftirlæti Vínarbúa um það leyti sem Schiller orti óð sinn en var úr takti við tíðarandann 1824, rétt eins og boðskapur textans. Karlaraddir kynna nýtt og hægara stef, og þar sem sungið er um almáttugan föður sem býr „stjörnum ofar“ (über Sternen muss er wohnen) bætir Beethoven við básúnum sem á 18. öld voru einmitt helst notaðar í kirkjutónlist. Beethoven gerir miklar kröfur til söngvara sinna, lætur þá syngja á hæsta tónsviði eins og raddirnar eigi beinlínis að teygja sig upp í himinhvolfið. Hápunktur þáttarins er náð þegar Beethoven lætur tvö meginstef kaflans, „Seid umschlungen“ og Óðinn til gleðinnar, hljóma samtímis í tvöfaldri fúgu. Slík stefjasamsetning er einmitt til marks um áhuga hans á fúguskrifum síðustu árin sem hann lifði.
Lengi hefur verið deilt um hvernig sé best að túlka hið margbreytilega form lokaþáttarins. Hann er sannarlega óhefðbundinn lokaþáttur í sinfóníu, öllu frekar eins og konsert fyrir einsöngvara og kór, jafnvel smækkuð útgáfa af óratóríu eða franskri kantötu frá byltingartímanum. Hann kallast bæði á við sónötu- og tilbrigðaform, og þótt margt beri á milli í öðrum atriðum virðast flestir sammála um að hægt sé að telja átta tilbrigði við gleðistefið. Lokaþátturinn endurspeglar líka heildarform sinfóníunnar: inngangskafli; scherzo; hægur kafli; niðurlag. En þó er mest um vert að í tónunum býr upphafning sem engin orð fá almennilega skýrt.
Víða á netinu má finna flutning á Níundu sinfóníunni, í heild eða að hluta og í ýmsum útgáfum. Í borginni Sabadell á Spáni var til dæmis skemmtileg uppákoma árið 2012 þegar yfir 100 hljóðfæraleikarar og söngvarar tíndust smám saman inn á torgið Plaça de Sant Roc og fluttu Óðinn til gleðinnar.
Myndir:
Þetta svar er stytt og aðeins aðlöguð útgáfa af umfjöllun um Níundu sinfóníu Beethovens í bókinni Saga tónlistarinnar sem Forlagið gaf út árið 2016 og birt með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.
Árni Heimir Ingólfsson. „Er hægt að lýsa 9. sinfóníunni með orðum?“ Vísindavefurinn, 28. mars 2017, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=73474.
Árni Heimir Ingólfsson. (2017, 28. mars). Er hægt að lýsa 9. sinfóníunni með orðum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=73474
Árni Heimir Ingólfsson. „Er hægt að lýsa 9. sinfóníunni með orðum?“ Vísindavefurinn. 28. mar. 2017. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=73474>.