Íslenski þjóðfáninn er heiðblár með mjallhvítum krossi og eldrauðum krossi innan í hvíta krossinum.
A.1. Heimild til að nota fánann. Öllum er heimilt að nota hinn almenna þjóðfána, enda sé farið að lögum og reglum, sem um hann gilda. Æskilegt er að almenningur dragi fána á stöng á fánadögum, þá daga sem ríkisfáninn er hafður uppi á opinberum byggingum, sbr. B.1.b. hér á eftir. Fánann má nota við öll hátíðleg tækifæri, jafnt þau sem tengjast einkalífi sem önnur eða á sorgarstundum, þá dreginn í hálfa stöng.Þar segir einnig:
A.11. Ýmsar reglur um fánann a. Þegar fáni er dreginn á stöng eða dreginn niður, skal gæta þess að hann snerti ekki jörð, vatnsyfirborð eða gólf. b. Sé fáni á stöng við altari, ræðustól eða ræðuborð, leiksvið eða annan sambærilegan stað, skal hann vera vinstra megin séð frá áhorfanda. Séu fánarnir tveir, skulu þeir vera sinn til hvorrar handar. Hvorki skal sveipa ræðustól þjóðfánanum né hafa hann framan á ræðustól. Eigi má nota þjóðfánann til að sveipa með honum styttu eða annan hlut, sem á að afhjúpa, og aldrei skal nota hann sem borðdúk eða gólfábreiðu.Höfundur fann ekkert í lögum né reglugerðum um þjóðfánann sem banna það að hann megi setja í þvottavél. Það myndi þó sennilega flestum þykja það mikil óprýði og lítilsvirðing við fánann ef hann væri dreginn skítugur að húni. Fæstir myndu því sennilega telja það illa meðferð að þrífa fánann. Handþvottur myndi þó sennilega vera öllu mildari meðhöndlun heldur en þvottavélin. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað táknar rauði liturinn í íslenska fánanum? eftir Gísla Gunnarsson
- Hver bjó til íslenska fánann?
- Hvers vegna er flaggað í hálfa stöng? eftir Ulriku Anderssen
- Gilda einhverjar reglur um tattóveringu þjóðfánans? eftir Arndís Anna K. Gunnarsdóttur