Hljóðhraðinn í lofti er um 340 m/s. Þegar farartæki (eða aðrir hlutir) ná hraðanum 340 m/s eða 1220 km/klst er sagt að þau hafi rofið hljóðmúrinn. Við það heyrist mikill hávaði eða hvellur en svo fellur allt í dúnalogn því hljóðið frá vélunum nær ekki eyrum farþeganna, einfaldlega vegna þess að þeir ferðast hraðar en hljóðið. Málglaðir þurfa þó ekki að kvíða, hljóð berst enn á milli manna inni í vélinni, því að þar er það afstæður hraði sem máli skiptir. Með öðrum orðum flytur flugvélin með sér loftið sem ber hljóð milli manna inni í vélinni og þetta loft ber hljóðið á milli manna. Miðað við þá fer það á 340 m/s og þeir heyra það á eðlilegan hátt. Miðað við jörð fer það hins vegar á mun meiri hraða, um það bil þeim sama og þotan. Þessu er öðruvísi farið með hljóðið frá hreyflunum. Það hreyfist á hraðanum 340 m/s miðað við jörð, en miðað við mennina verður það eiginlega eftir! Frá þeirra sjónarmiði (eða eyrnamiði) fer það í burtu á hraða sem er vel yfir 340 m/s og þess vegna heyra þeir það ekki! Mynd
- NASA. Sótt 1. 7. 2011.