Einungis er heimilt að úthluta sem arði hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs, yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum og frjálsum sjóðum eftir að dregið hefur verið frá tap sem ekki hefur verið jafnað og það fé sem samkvæmt lögum eða félagssamþykktum skal lagt í varasjóð eða til annarra þarfa. …Ákvæði þetta felur í sér að arðgreiðslur eiga ekki að geta orðið hærri en hagnaður félagsins á viðkomandi ári eða uppsafnaður og óútgreiddur hagnaður fyrri ára. Það kemur þó ekki í veg fyrir þann möguleika að arðúthlutun verði aukin með því að eigandi félags reikni sér eða öðrum sem starfa fyrir félagið lægri laun en eðlilegt er. Með því eykst hagnaður félagsins og heimild til útgreiðslu á arði. Til þess að mæta þessu eru í lögum um tekjuskatt nr. 90/2003 ákvæði sem skylda ráðandi aðila í félagi til að reikna sér að lágmarki þau laun fyrir vinnu sem ætla má að óskyldum og ótengdum manni yrðu greidd fyrir starfið. Ákvæði þessi eiga við hvort heldur að atvinnustarfsemin er í nafni einstaklingsins sjálfs eða í höndum félags þar sem hann er ráðandi aðili og ná einnig til maka og nákominna skyldmenna. Ákvæði þessi er að finna í 58. gr. laganna og eru svohljóðandi:
(1. mgr. 58. gr.) Endurgjald fyrir vinnu manns, sem reikna skal sér endurgjald skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr., skal eigi vera lægra en launatekjur hans hefðu orðið ef unnið hefði verið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. … (4. mgr. 58. gr.) Ákvæði 1. og 2. mgr. skulu gilda um starf á vegum lögaðila eftir því sem við getur átt, enda vinni maður við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann, maki hans, barn eða nákomnir ættingjar hafa ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar, þó ekki ef um er að ræða starf á vegum lögaðila sem skráður er á opinberum verðbréfamarkaði. Maður telst hafa ráðandi stöðu í þessu sambandi ef hann einn eða ásamt maka, börnum, foreldrum, systkinum eða öðrum nákomnum ættingjum eða starfandi hluthöfum á samtals 50% hlut eða meira í lögaðila enda eigi hver um sig a.m.k. 5% hlut í þeim lögaðila.Samkvæmt þessu hefur eigandi einkahlutafélags ekki val um það að greiða sér arð í stað launa. Honum ber að reikna sér og öðrum sér nákomnum sem starfa í félaginu eðlileg markaðslaun. Eftir að því marki er náð hefur hann val um að greiða hærri laun og minnka þannig svigrúm til arðsgreiðslna eða ekki. Mynd:
- Purse with Money | A leather purse with three 20 dollar bill… | Flickr. Myndrétthafi er 401(K) 2012. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 08.03.2017).