Eru til opinberar reglur um hvernig eigi að fallbeygja nafnorð, svipað og til dæmis um réttritun? Er til dæmis til einhver opinber regla um það hvernig orðið kýr fallbeygist og hvernig það skuli vera í nefnifalli (ekki kú)?Til að svara spurningunni verður fyrst að gera stuttlega grein fyrir því hvað átt er við með hugtakinu „regla um beygingu“. Hugtakið „málfræðiregla“ hefur í raun tvær merkingar eftir því hvort um er að ræða lýsandi málfræði (hlutlausa lýsingu á því hvernig fólk beitir málinu) eða vísandi málfræði (forskriftarmálfræði þar sem mælt er með einu fremur en öðru). Tökum tvö dæmi: 1. Í lýsingu á íslensku nútímamáli felst meðal annars að gera grein fyrir þeirri staðreynd að frumlag sagnarinnar langa í íslensku er ýmist í þolfalli (mig langar) eða þágufalli (mér langar). Í vísandi málfræði um íslenskt nútímamál er aftur á móti leiðbeint um að það sé talið vandað mál að hafa frumlagið í þolfalli (mig langar) en óvandað mál að hafa frumlagið í þágufalli (mér langar). Sú lýsandi málfræðiregla, sem segir að frumlag sagnarinnar langa í íslensku geti verið bæði í þolfalli og í þágufalli, er þannig annars eðlis en hin vísandi regla: „í vönduðu íslensku máli er frumlag sagnarinnar langa haft í þolfalli“.

Í Stafsetningarorðabókinni sést bæði sú ritregla að kýr er haft með ý en ekki í og sú beygingarregla að þolfalls- og þágufallsmyndin sé kú en kýr í nefnifalli og eignarfalli eintölu.
- Cows | Atli Harðarson | Flickr. Myndrétthafi er Atli Harðarson. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 24.02.2017).