Hvernig myndi melancholy þýðast yfir á íslensku? Ég hef séð orðabækur þýða það yfir sem þunglyndur, en mér finnst það ekki góð þýðing. Þunglyndur er að sjálfsögðu depressed.Stutta svarið við þessari spurningu er að það fer eftir samhengi hvernig best er að þýða orðið melankólía. Það hefur til dæmis verið þýtt með orðunum 'þunglyndi, geðlægð, fálæti, depurð'. En einnig kæmi til greina að nota orðin 'melankólía, svartagall, svart gall'. Ef ætlunin er að ná sögulegri vísun í þýðingunni væru síðarnefndu orðin heppilegri en þau fyrrnefndu. Melankólía kemur úr grísku og er samsett. Fyrri hlutinn er hvorugkynsmynd af orðinu mélas sem þýðir 'svartur' og seinni hlutinn merkir 'gall'. Bókstafleg merking orðsins er þess vegna 'svart gall', samanber íslenska orðið svartagall sem þekkist í íslensku frá frá miðri 19. öld en kemur nú sjaldan fyrir. Skýringar á orðinu er að leita aftur til Forngrikkja. Forngríski læknirinn Hippókrates (um 460 - um 375 f.Kr.), sem kallaður hefur verið faðir læknisfræðinnar, setti fram kenningu um fjóra vessa líkamans. Þeir voru: blóð, slím, gult gall og svart gall. Hann taldi að hægt væri að skýra ýmislegt í lundarfari manna vegna ójafnvægis í hlutfalli vessanna fjögurra. Of mikið svart gall orsakaði til að mynda depurð eða melankólíu. Forngríski læknirinn Galenos (um 129 - um 216) tók upp vessakenningu Hippókratesar og tengdi hana jarðnesku frumefnunum fjórum, sem nefnast einnig höfuðskepnur á íslensku. Höfuðskepnurnar fjórar eru eldur, loft, vatn og jörð. Gallið átti að samsvara eldi, svartagall jörðu, blóðið lofti og slímið vatni. Til þess að lækna sjúklinga þurfti fyrst og fremst að koma jafnvægi á vessana fjóra, til dæmis með því að gefa tiltekin lyf eða jurtir eða með blóðtöku. Rit Galenosar voru lesin í læknanámi fram á 19. öld. Mynd:
- Four temperaments - Wikipedia. (Sótt 31.01.2017).