Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Ráðast úlfar á menn þótt þeir séu saddir?

Jón Már Halldórsson

Í stuttu máli er svarið við spurningunni: Já, úlfar geta ráðist á menn þótt þeir séu saddir. Hins vegar eru árásir úlfa á menn tiltölulega sjaldgæfar.

Vísindamenn hafa flokkað árásir úlfa á menn á ýmsan hátt. Dýrafræðingurinn John D. C. Linnell o.fl. (2002) hafa unnið gott sögulegt yfirlit yfir úlfaárásir í Asíu, Evrópu og Bandaríkjunum. Þeir skipta árásunum í þrjá meginflokka:

  • Úlfar smitaðir af hundaæði.
  • Úlfar í vörn (þeim hefur verið ögrað á einhvern hátt).
  • Afrán – úlfar í leit að fæðu (þetta hefur líka verið flokkað sem tilefnislausar árásir).

Flestir úlfar sem ráðast á menn eru smitaðir af hundaæði og virðist svo hafa verið um aldir. Tíðni slíkra árása er þó mjög breytileg eftir landsvæðum. Árásir smitaðra úlfa eru afar sjaldgæfar í Norður-Ameríku en mun algengari við austanvert Miðjarðarhaf og austur um Mið-Asíu. Ástæðan fyrir þessu er ekki kunn en möguleg skýring gæti verið tilvist sjakala á þessum svæðum. Hundaæði er algengara í sjakölum en öðrum hunddýrum og þeir eru almennt taldir helstu hýslar veirunnar sem veldur sjúkdómnum.

Úlfur sýktur af hundaæði er stórhættuleg skepna. Hann virðist sýna mun meiri árásargirnd en önnur hunddýr sem haldin eru hundaæði og vegna krafts og stærðar er sýktur úlfur stórhættulegur. Rannsóknir hafa sýnt að úlfur með hundaæði er venjulega einn á ferð, fer víða og ræðst á marga, bæði menn og húsdýr. Slík dýr ganga þó ekki berserksgang lengi þar sem þetta stig sjúkdómsins varir aðeins í einn til tvo daga.

Málverk eftir franska málarann François Grenier de Saint-Martin (1793-1867) frá árinu 1833.

Í þessum tilfellum kemur hungur ekkert við sögu og fórnarlömbin eru aðeins bitin en ekki étin, sem þó leiðir oft til dauða ef ekkert er að gert. Úlfarnir ráðast á menn óháð aðstæðum en velja ekki bráðina af kostgæfni, líkt og úlfar sem stunda afrán. Algengast er að karlmenn sem vinna við landbúnað eða skógarhögg verði fyrir árás smitaðra úlfa, enda eru þeir líklegri til að verða á vegi úlfa en fólk í þorpum eða þéttbýli.

Úlfar geta ráðist á menn sé þeim ögrað eða þeir truflaðir á einhvern hátt sem kallar á varnarviðbrögð. Þetta getur verið með ýmsu móti; menn ætlað að skerast í leikinn þegar úlfar sækja að húsdýrum eða hundum, úlfynju finnst hvolpum hennar ógnað, ljósmyndarar eða gestir í þjóðgörðum eða vísindamenn gæta sín ekki og fara of nærri dýrunum og svo framvegis. Í svona tilfellum eru árásirnar snöggar, oftast eitt bit eða jafnvel tvö og svo hörfar úlfurinn. Þessar árásir geta stórskaðað og jafnvel drepið en engin merki sjást um tilraun til mannáts.

Í þennan flokk geta líka fallið árásir úlfa sem eru ekki lengur hræddir við menn af einhverjum ástæðum, til dæmis ef þeir eru orðnir vanir að sækja í æti frá mönnum eða hafa verið í haldi manna.

Þá erum við komin að síðasta flokk árása eins og Linnell og félagar skipta þeim en það er afránið, tilefnislausar árásir sem eru einfaldlega veiðar eða afrán úlfa á mönnum. Þá er aðalhvatinn árásanna hungur og rándýrseðli úlfanna. Venjulega hafa úlfarnir fylgst með manneskjunni í einhvern tíma og gera svo vel skipulagða árás, oftast einn úlfur en stundum hópur. Manneskjan er þá bitin, oft í háls og höfuð, þar til hún verður óvíg og síðan dregin í var þar sem úlfurinn hefur næði til að éta.

Á Indlandi er þekkt að úlfar hafi fylgst með húsum í þorpum til sveita, farið svo hljóðlega inn, drepið barn í rúmi sínu með biti í háls eða munn og nef, tekið barnið upp og farið með það út. Dýrafræðingar kalla þetta atferli á ensku „child lifting“. Þetta kann að vera óhugnanleg lesning en svona hlutir hafa gerst í samskiptum manna og rándýra frá örófi alda og er enn þann dag í dag veruleiki margra þótt slíkir atburðir verði sífellt fátíðari.

Úlfar geta ráðist á menn án þess að vera hungraðir. Hins vegar eru árásir úlfa mun sjaldgæfari en árásir margra annarra stórra rándýra.

Það fer að einhverju leyti eftir framboði og aðgengi að bráð hversu oft úlfar ráðast á menn í þeim tilgangi að afla sér matar. Til að mynda voru úlfar duglegir að fara á vígvelli í fyrri og jafnvel seinni heimsstyrjöld í leit að æti. Engar tölur eru um slíkar árásir en ljóst að þær áttu sér stað. Sem dæmi má nefna að veturinn 1916-1917 áttu þýskir og rússneskir hermenn við Vilnius-Minsk-víglínuna ekki aðeins í stríði hvorir við aðra heldur þurftu einnig að verjast ásókn banhungraðra úlfahópa. Hross sem voru notuð til hernaðar og helsærðir hermenn freistuðu úlfanna og þrátt fyrir að hermennirnir beittu vélbyssum og handsprengjum og dræpu fjölda úlfa þá komu bara nýir hópar í staðinn. Að lokum var samið um tveggja daga vopnahlé til þess að geta varist úlfum með virkari hætti og tókst hermönnum beggja herja að drepa fjölda úlfa áður en þeir tóku aftur til við að drepa aðra menn.

Þrátt fyrir þessa óhugnanlegu lesningu þá eru manndráp úlfa afar sjaldgæf og miklu sjaldgæfari en dráp annarra stórra rándýra, sérstaklega kattardýra svo sem ljóna (Panthera leo), tígrisdýra (Panthera tigris) og hlébarða (Panthera pardus). Það orðspor sem fer af úlfum í gömlum ævintýrum þykir mjög óvægið og vart réttlætanlegt þrátt fyrir óhugnanleg atvik á Indlandi á síðastliðnum 150 árum. Aðaltjónið sem úlfar valda er dráp á búfénaði, sérstaklega í Mið-Asíu og í Síberíu. Meginreglan er sú að úlfar forðast menn í lengstu lög en í þeim tilvikum sem úlfar hætta að forðast menn og sýna jafnvel árásarhneigð er hætta á ferðum. Úlfar eru stór og sterk rándýr og full ástæða að gæta varúðar ef vitað er af þeim í nánd.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

11.5.2017

Síðast uppfært

12.5.2017

Spyrjandi

María Margrét Gísladóttir

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Ráðast úlfar á menn þótt þeir séu saddir?“ Vísindavefurinn, 11. maí 2017, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=73302.

Jón Már Halldórsson. (2017, 11. maí). Ráðast úlfar á menn þótt þeir séu saddir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=73302

Jón Már Halldórsson. „Ráðast úlfar á menn þótt þeir séu saddir?“ Vísindavefurinn. 11. maí. 2017. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=73302>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Ráðast úlfar á menn þótt þeir séu saddir?
Í stuttu máli er svarið við spurningunni: Já, úlfar geta ráðist á menn þótt þeir séu saddir. Hins vegar eru árásir úlfa á menn tiltölulega sjaldgæfar.

Vísindamenn hafa flokkað árásir úlfa á menn á ýmsan hátt. Dýrafræðingurinn John D. C. Linnell o.fl. (2002) hafa unnið gott sögulegt yfirlit yfir úlfaárásir í Asíu, Evrópu og Bandaríkjunum. Þeir skipta árásunum í þrjá meginflokka:

  • Úlfar smitaðir af hundaæði.
  • Úlfar í vörn (þeim hefur verið ögrað á einhvern hátt).
  • Afrán – úlfar í leit að fæðu (þetta hefur líka verið flokkað sem tilefnislausar árásir).

Flestir úlfar sem ráðast á menn eru smitaðir af hundaæði og virðist svo hafa verið um aldir. Tíðni slíkra árása er þó mjög breytileg eftir landsvæðum. Árásir smitaðra úlfa eru afar sjaldgæfar í Norður-Ameríku en mun algengari við austanvert Miðjarðarhaf og austur um Mið-Asíu. Ástæðan fyrir þessu er ekki kunn en möguleg skýring gæti verið tilvist sjakala á þessum svæðum. Hundaæði er algengara í sjakölum en öðrum hunddýrum og þeir eru almennt taldir helstu hýslar veirunnar sem veldur sjúkdómnum.

Úlfur sýktur af hundaæði er stórhættuleg skepna. Hann virðist sýna mun meiri árásargirnd en önnur hunddýr sem haldin eru hundaæði og vegna krafts og stærðar er sýktur úlfur stórhættulegur. Rannsóknir hafa sýnt að úlfur með hundaæði er venjulega einn á ferð, fer víða og ræðst á marga, bæði menn og húsdýr. Slík dýr ganga þó ekki berserksgang lengi þar sem þetta stig sjúkdómsins varir aðeins í einn til tvo daga.

Málverk eftir franska málarann François Grenier de Saint-Martin (1793-1867) frá árinu 1833.

Í þessum tilfellum kemur hungur ekkert við sögu og fórnarlömbin eru aðeins bitin en ekki étin, sem þó leiðir oft til dauða ef ekkert er að gert. Úlfarnir ráðast á menn óháð aðstæðum en velja ekki bráðina af kostgæfni, líkt og úlfar sem stunda afrán. Algengast er að karlmenn sem vinna við landbúnað eða skógarhögg verði fyrir árás smitaðra úlfa, enda eru þeir líklegri til að verða á vegi úlfa en fólk í þorpum eða þéttbýli.

Úlfar geta ráðist á menn sé þeim ögrað eða þeir truflaðir á einhvern hátt sem kallar á varnarviðbrögð. Þetta getur verið með ýmsu móti; menn ætlað að skerast í leikinn þegar úlfar sækja að húsdýrum eða hundum, úlfynju finnst hvolpum hennar ógnað, ljósmyndarar eða gestir í þjóðgörðum eða vísindamenn gæta sín ekki og fara of nærri dýrunum og svo framvegis. Í svona tilfellum eru árásirnar snöggar, oftast eitt bit eða jafnvel tvö og svo hörfar úlfurinn. Þessar árásir geta stórskaðað og jafnvel drepið en engin merki sjást um tilraun til mannáts.

Í þennan flokk geta líka fallið árásir úlfa sem eru ekki lengur hræddir við menn af einhverjum ástæðum, til dæmis ef þeir eru orðnir vanir að sækja í æti frá mönnum eða hafa verið í haldi manna.

Þá erum við komin að síðasta flokk árása eins og Linnell og félagar skipta þeim en það er afránið, tilefnislausar árásir sem eru einfaldlega veiðar eða afrán úlfa á mönnum. Þá er aðalhvatinn árásanna hungur og rándýrseðli úlfanna. Venjulega hafa úlfarnir fylgst með manneskjunni í einhvern tíma og gera svo vel skipulagða árás, oftast einn úlfur en stundum hópur. Manneskjan er þá bitin, oft í háls og höfuð, þar til hún verður óvíg og síðan dregin í var þar sem úlfurinn hefur næði til að éta.

Á Indlandi er þekkt að úlfar hafi fylgst með húsum í þorpum til sveita, farið svo hljóðlega inn, drepið barn í rúmi sínu með biti í háls eða munn og nef, tekið barnið upp og farið með það út. Dýrafræðingar kalla þetta atferli á ensku „child lifting“. Þetta kann að vera óhugnanleg lesning en svona hlutir hafa gerst í samskiptum manna og rándýra frá örófi alda og er enn þann dag í dag veruleiki margra þótt slíkir atburðir verði sífellt fátíðari.

Úlfar geta ráðist á menn án þess að vera hungraðir. Hins vegar eru árásir úlfa mun sjaldgæfari en árásir margra annarra stórra rándýra.

Það fer að einhverju leyti eftir framboði og aðgengi að bráð hversu oft úlfar ráðast á menn í þeim tilgangi að afla sér matar. Til að mynda voru úlfar duglegir að fara á vígvelli í fyrri og jafnvel seinni heimsstyrjöld í leit að æti. Engar tölur eru um slíkar árásir en ljóst að þær áttu sér stað. Sem dæmi má nefna að veturinn 1916-1917 áttu þýskir og rússneskir hermenn við Vilnius-Minsk-víglínuna ekki aðeins í stríði hvorir við aðra heldur þurftu einnig að verjast ásókn banhungraðra úlfahópa. Hross sem voru notuð til hernaðar og helsærðir hermenn freistuðu úlfanna og þrátt fyrir að hermennirnir beittu vélbyssum og handsprengjum og dræpu fjölda úlfa þá komu bara nýir hópar í staðinn. Að lokum var samið um tveggja daga vopnahlé til þess að geta varist úlfum með virkari hætti og tókst hermönnum beggja herja að drepa fjölda úlfa áður en þeir tóku aftur til við að drepa aðra menn.

Þrátt fyrir þessa óhugnanlegu lesningu þá eru manndráp úlfa afar sjaldgæf og miklu sjaldgæfari en dráp annarra stórra rándýra, sérstaklega kattardýra svo sem ljóna (Panthera leo), tígrisdýra (Panthera tigris) og hlébarða (Panthera pardus). Það orðspor sem fer af úlfum í gömlum ævintýrum þykir mjög óvægið og vart réttlætanlegt þrátt fyrir óhugnanleg atvik á Indlandi á síðastliðnum 150 árum. Aðaltjónið sem úlfar valda er dráp á búfénaði, sérstaklega í Mið-Asíu og í Síberíu. Meginreglan er sú að úlfar forðast menn í lengstu lög en í þeim tilvikum sem úlfar hætta að forðast menn og sýna jafnvel árásarhneigð er hætta á ferðum. Úlfar eru stór og sterk rándýr og full ástæða að gæta varúðar ef vitað er af þeim í nánd.

Heimildir og myndir:

...