Lirfustig skordýra er nokkurs konar át- og vaxtarstig. Þá vaxa skordýrin og safna næringu til fullorðinsstigsins. Púpustigið tekur við af lirfustiginu en þá umbreytast lirfur í fullorðin dýr. Þá liggja dýrin hreyfingarlaus og miklar breytingar eiga sér stað á útliti þeirra, líffæri skipta um hlutverk og ný líffæri, eins og æxlunarfærin, vaxa í dýrunum.Úr púpunni koma síðan fullvaxin skordýr sem hafa það að markmiði að æxlast og dreifa sér. Reyndar er það svo að stundum sjáum við flugur á veturna. Ástæðan fyrir því er að á Íslandi er umhleypingasamt. Stundum er hlýtt hér á veturna og þá geta púpur klakist út og þá sjáum við flugur. Umhleypingarnar hér á landi eru líklega ástæðan fyrir því að moskítóflugur (Culicidae) sem finnast á Grænlandi eru ekki hér. Í svari við spurningunni Af hverju lifa ekki moskítóflugur á Íslandi, fyrst þær geta lifað báðum megin á Grænlandi? hefur Gísli Már Gíslason þetta að segja:
Á Grænlandi og Norður Skandinavíu er púpan í dvala undir ís á tjörnum yfir veturinn en um leið og ísa leysir klekst púpan og flýgur upp sem fluga. Þetta gerist á vorin, því að vetur á heimskautasvæðum er samfelldur. Á Íslandi eru hins vegar umhleypingar. Um miðjan vetur getur hlýnað skyndilega, ísa leyst en síðan kólnað fljótt aftur. Við þessi skilyrði myndi púpan klekjast út væri hún til staðar. Flugan þyrfti þá að leita að bráð til að sjúga úr blóð, síðan þyrfti hún nokkra daga til þess að þroska eggin, hitta maka og verpa eggjunum í tjarnir eða votlendi. Umskiptin í veðri á Íslandi á veturna eru svo hröð að moskítóflugan fær ekki svigrúm til þess að ljúka lífsferli sínum. Við þessar aðstæður væri púpan því enn óþroskuð þegar aftur frysti og ís myndaðist á tjörnum.
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.