Hvers vegna eru ekki skotin jafnmörg hreindýr af hvoru kyni á hverju tímabili?Í villtum hreindýrastofnum er kynjahlutfall skekkt vegna hærri dánartíðni tarfa. Það tengist fengitímanum en þá fer mestur tími tarfanna í hlaup og slagsmál. Þá horast þeir niður og sumir særast. Ef vetur er harður falla þeir því oft fyrstir. Stefnt er að því að fjórir tarfar séu á móti sex kúm í íslenska hreindýrastofninum að hausti. Kynjahlutfallið er skoðað á fengitíma, í september-október og út frá því ræðst hver tarfakvótinn verður að ári. Austurlandi er skipt í níu veiðisvæði og getur fjöldi tarfa verið mismunandi innan þeirra. Vegna þess getur tarfahlutfallið í veiðinni verið breytilegt á milli svæða. Fyrir árið 1990 var kvótinn ekki kynskiptur. Veiðimenn sóttust eftir hornprúðum fullorðnum törfum sem voru að lágmarki helmingi þyngri en kýrnar. Það leiddi til þess að þeim fækkaði mjög. Með tilkomu Umhverfisráðuneytisins sem fól Veiðistjóraembættinu vöktun og rannsóknir á hreindýrastofninum var eitt fyrsta verkefnið að gefa út kynjaskiptan kvóta og hann notaður til að leiðrétta kynjahallann. Kynjaskiptingu stofnsins á mismunandi tímabilum má sjá á 2. mynd. Náttúrustofa Austurlands vaktar hreindýrastofninn og kannar kynjasamsetningu mismunandi hjarða á fengitíma. Niðurstöður birtir hún árlega í skýrslu og skýrsluna fyrir 2016 má finna á vef stofnunarinnar. Myndir:
- Skarphéðinn G. Þórisson.