Til þess að útskýra þetta betur eru hérna nokkur dæmi um spurningar: Allar þessar þessar setningar falla undir skilgreininguna sem við settum fram á hugtakinu spurning: Í þeim felst áskorun til viðmælanda um að veita upplýsingar. Upplýsingarnar eru svarið við spurningunni. Það er hægt að fá ágætis yfirlit yfir setningar af sama tagi, með því að lesa þær spurningar sem hafa borist til Vísindavefsins á undaförnum árum. Þær eru allar hér, alls 7100 talsins þegar þetta svar er skrifað. En Birgitta Inga sem vildi fá að vita hvað spurning væri, vill líka vita hvernig maður veit svarið við spurningunni? Það er erfið spurning. Til að svara henni þurfum við að vita hvað svar er. Einföld útskýring á svari er að það er viðbragð af réttu tagi við spurningunni. Um þessa skilgreiningu á svari geta menn til dæmis lesið í svari við spurningunni Eru til svör við öllu?
En hvað er þá viðbragð af réttu tagi? Ef svar við spurningu er út í hött, þá er það ekki viðbragð af réttu tagi. Ef einhver spyr mig: "Hvað ertu hár?" og ég svara: "Afi minn burstar tennurnar" þá er það ekki gott svar. Viðbragð af réttu tagi er þess vegna svar sem veitir þær upplýsingar sem beðið er um í spurningunni. En svo getur auðvitað komið fyrir að spurningarnar séu út í hött eða ekki skýrar og þá er erfitt að veita skýrt svar. En svar sem er út í hött við spurningu sem er út í hött er líklega nokkuð rétt viðbragð. Ef einhver spyr mig: "Hvað er sól baðlöng?" þá er kannski allt í lagi að svara: "Emil er ketilmjór." En hvernig vitum við þá svarið við spurningunum? Hvernig vitum við hvað viðbrögð af réttu tagi eru? Svarið við því er, að við vitum það auðvitað ekki alltaf. En við getum reynt að afla okkur upplýsinganna sem eru nauðsynlegar til að bregðast rétt við. Þegar höfundur þessa svars fékk spurninguna "Hvernig veit maður hvað er spurning? Og ef maður veit það, hvernig veit maður svarið?" var hann ekki viss um hvernig hann ætti að svara henni. Hann þurfti að velta hlutunum fyrir sér og hann las meðal annars önnur svör á Vísindavefnum sem fjalla um svipaða hluti. Ágæt leið til að svara spurningum er þess vegna að velta hlutunum fyrir sér, brjóta heilann og afla sér upplýsinga.
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.