Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í janúar 1495 skrifaði Kólumbus konungshjónunum á Spáni þeim Ferdínand og Ísabellu bréf í þeim tilgangi að réttlæta og verja gerðir sínar sem landstjóri í spænsku nýlendunum vestanhafs en margt var honum mótdrægt í því starfi. Einnig höfðu andstæðingar hans heima í Madríd gagnrýnt hann og rægt. Bréfið notaði hann jafnframt til að hampa afrekum sínum og hæfni og segir meðal annars frá því að hann hafi í febrúar 1477 siglt eitt hundrað rastir, tæplega 600 km, út fyrir eyjuna Tile (einnig nefnd Thule í heimildum) en suðurströnd hennar sé 73 gráður frá miðbaug. Kólumbus segir einnig frá því að munur á flóði og fjöru á Tile sé 25 faðmar eða um 41 m.
Þeir sem telja að Kólumbus hafi komið til Íslands og fengið þar upplýsingar um ókönnuð lönd í vestri byggja málflutning sinn á þessu bréfi. Það var Finnur Magnússon leyndarskjalavörður konungs sem fyrstur vakti athygli Íslendinga á því í grein sem hann skrifaði um Íslandssiglingar Englendinga í Nordisk Tidskrift for Oldkyndighed árið 1833. Síðan hafa þeir Vilhjálmur Stefánsson, Sigurður Líndal og fleiri hent þessa kenningu á lofti, Vilhjálmur í bók sinni Últíma Thule og Sigurður í viðaukum sínum við kafla Björns Þorsteinssonar og Guðrúnar Ásu Grímsdóttir, „Enska öldin,“ í fimmta bindinu af Sögu Íslands.
Þorvaldur Thoroddsen fjallaði einnig um hugsanlega Íslandsför Kólumbusar í Landfræðisögu sinni en var mjög gagnrýninn á frásögnina þótt hann treysti sér ekki til að hafna henni algerlega.
Ólíklegt er að Kólumbus hafi nokkurn tíma komið til Íslands þótt ekki sé hægt að hafna því alfarið. Málverkið er eftir John Vanderlyn (1775-1852) en það sýnir Kólumbus koma á land á eynni Guanahani hinn 12. október árið 1492.
Síðastur til að taka þetta mál til umfjöllunar var svo Sigurður Hjartarson í tímaritinu Sögu 2013. Hann bendir á að flest það sem nefnt sé í bréfinu frá 1495 varðandi för Kólumbusar á norðurslóðir standist enga skoðun. Hann staðsetji Tile miklu norðar en Ísland sé og þótt ekki sé útilokað að hingað hafi verið sigling í febrúar sé það fremur ólíklegt. Enn þá ólíklegra sé þó að menn hafi siglt langt norður fyrir land á miðjum þorra á þessum tíma. Hann bendir líka á að fullyrðing Kólumbusar um að flóðhæð á Íslandi sé um 41 m sé fráleit og allar tilraunir fræðimanna til að komast fram hjá þeirri staðreynd með fræðilegum loftfimleikum séu ótrúverðugar.
Að lokum segir Sigurður að þeir sem gera ráð fyrir Íslandsför Kólumbusar notist við gamla og mjög gallaða þýðingu á bréfinu en ekki bestu nútímaútgáfur og dregur fram nokkur dæmi þar um.
Svonefnt Kólumbusarkort frá því um 1492. Kortið er stundum eignað Kólumbusi þótt óljóst sé hvort það tengist honum.
Sigurður Hjartarson telur að þær upplýsingar sem fram koma í bréfinu gæti Kólumbus hafa fengið frá enskum sjómönnum sem sigldu til Portúgal eða hjá Portúgölum sem sigldu á England. Hann bendir enn fremur á að nær engar áreiðanlegar heimildir séu til um ævi Kólumbusar fyrir 1485, ekki einu sinni um fæðingardag hans.
Þegar öllu er á botninn hvolft verður að telja að þeir Sigurður Hjartarson og Þorvaldur Thoroddsen hafi rétt fyrir sér þegar þeir draga í efa að Kólumbus hafi nokkurn tíma komið til Íslands þótt ekki sé hægt að hafna því alfarið. Það verða því lokaorð þessa svars.
Heimildir:
Björn Þorsteinsson, Guðrún Ása Grímsdóttir með viðaukum eftir Sigurð Líndal, „Enska öldin,“ Saga Íslands V. Reykjavík 1990.
Sigurður Hjartarson, „Nokkur orð um Kristófer Kólumbus í íslenskri sagnfræði,“ Saga hausthefti 2013, bls. 170–182.
Guðmundur J. Guðmundsson. „Kom Kristófer Kólumbus til Íslands?“ Vísindavefurinn, 21. desember 2016, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=72902.
Guðmundur J. Guðmundsson. (2016, 21. desember). Kom Kristófer Kólumbus til Íslands? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=72902
Guðmundur J. Guðmundsson. „Kom Kristófer Kólumbus til Íslands?“ Vísindavefurinn. 21. des. 2016. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=72902>.