Þegar ég var við brauðbakstur í sumarbústaðnum fann ég lítið sníkjudýr í hveitipokanum. Skordýrið er á stærð við hrísgrjón eða um 0,5-1,0 cm. Það hefur margar fætur og er ögn loðið. Örmjó hár koma svo framan og aftan úr dýrinu, sem er með ljósbrúna skel og gæti líkst pínulítilli humarskel. Einnig fundum við horn í hveitiskúffunni þar sem nánast einungis voru „skeljar“ eða svæði þar sem dýrið hafði skipt um ham. Meðfylgjandi myndir sýna þetta vel.Myndirnar sem spyrjandi sendi sýna lirfur hamgæru eða hambjöllu (Reesa vespulae). Þessi bjalla er af svokallaðri fleskbjölluætt (Dermestidae) og er nokkuð algengt meindýr í heimahúsum víða um land. Nafn bjöllunar er dregið af hamskiptum hennar eins og fram kemur í svari sama höfundar við spurningunnu: Hvað er hambjalla? Því þrífst hún í hýbýlum manna? Getur hún valdið skaða? Á lirfustigi skiptir bjallan um ham 5-7 sinnum. Fyrst var þessarar bjöllu vart árið 1974 og mun hún hafa dreifst hratt út um landið. Hamgærur geta verið nokkuð miklir skaðvaldar á skinnvöru, auk þess sem dýrasöfn geta orðið fyrir tjóni af þeirra völdum. Þær éta einnig kornmeti, harðfisk og aðra þurrvöru. Talið er að lífsferill hamgærunnar taki eitt ár. Hvert dýr verpir allt að 20 eggjum og er klaktíminn um tvær vikur. Úr eggjunum koma lirfur en lirfutíminn er mislangur. Ræðst hann af aðstæðum hverju sinni en lirfurnar geta verið án vatns og næringar í marga mánuði sem lengir lirfutímann. Því næst púpa dýrin sig og úr púpunum koma bjöllur sem fólk oft sér dauðar í gluggum á vorin og sumrin. Myndir:
- Þór Blöndahl Arngrímsson.