Góðan dag! Karlmaður fellur frá á besta aldri. Hann á engin börn og engan maka en íbúð og peninga í banka. Foreldrar hans eru á lífi en móðir hans hefur verið í 20 ár á heilsustofnun (hún er út úr heiminum). Hann á líka þrjá bræður á lífi. Hver erfir hann?Hér skiptir máli hvaða reglur gildi um það hverjir skuli erfa einstakling sem fellur frá við þessar aðstæður. Þau lög sem fjalla um hvernig skuli ráðstafa arfi nefnast erfðalög. Núgildandi erfðalög voru upprunalega sett árið 1962. Þau hafa því að mestu staðist tímans tönn, en þó ber að geta þess að lögin hafa verið uppfærð reglulega, seinast árið 2013. Í erfðalögum kemur fram hvernig skuli ráðstafa eigum látins manns, en í lögunum eru þær eignir nefndar arfur, og hinn látni er nefndur arfleifandi. Þegar kemur að því að leysa úr því máli sem hér er til skoðunar þarf að líta til reglna erfðalaga um erfðaröð. Fremst í erfðaröðinni eru maki hins látna og börn þeirra, ef einhver eru, en slíkir erfingjar eru ekki fyrir hendi hér. Þegar hvorki er um að ræða að arfleifandi eigi maka eða börn á lífi eru foreldrar hins látna næstir í erfðaröðinni. Í ljósi þess að báðir foreldrar arfleifanda eru á lífi, þá eru þau hans einu erfingjar. Í spurningunni var því velt upp hvaða áhrif það kynni að hafa að móðir arfleifanda væri „út úr heiminum“ og væri vistuð á stofnun. Slíkt hefur ekki áhrif á rétt móðurinnar sem erfingja, þar sem engin skilyrði er að finna í erfðalögum um að erfingi skuli vera við góða andlega heilsu. Aftur á móti væri ráðstöfunarréttur móðurinnar á arfinum takmarkaður, ef um það væri að ræða að hún hafi verið svipt fjárræði sínu á grundvelli heimildar í lögræðislögum. Þess má að auki geta, að ef annað eða bæði foreldra arfleifanda væru látin, þá myndi arfur látins foreldris renna til lifandi barna foreldranna, sem í þessu tilviki væru hinir þrír bræður arfleifandans. Arfurinn mundi þá skiptast jafnt á milli þeirra þriggja. Mynd:
- File:Space Shuttle Columbia funeral -g.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 31.10.2016).