Sumir eru ekki hæfir til þess að sjá um öll sín mál sjálfir þótt þeir hafi náð 18 aldri. Þetta getur til dæmis átt við þá sem eiga við geðsjúkdóma að stríða, eru þroskaheftir eða geta af einhverjum orsökum ekki talist ábyrgir gerða sinna. Þessa einstaklinga er hægt að svipta lögræði, eða eftir atvikum annað hvort sjálfræði eða fjárræði. Um þetta fjallar II. kafli fyrrnefndra lögræðislaga. Þar segir í 4. gr.:
[Standi brýn þörf til, enda hafi önnur og vægari úrræði í formi aðstoðar verið fullreynd, er heimilt með úrskurði dómara að svipta mann tímabundið lögræði. Heimilt er að svipta mann sjálfræði einu sér, fjárræði einu sér eða hvoru tveggja]: a. Ef hann er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé vegna andlegs vanþroska, ellisljóleika eða geðsjúkdóms eða vegna annars konar alvarlegs heilsubrests. b. [Ef hann sökum ofdrykkju eða ofnotkunar ávana- og fíkniefna er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé og einhver þeirra ástæðna sem tilgreindar eru í a- og c-lið eiga við um viðkomandi.] c. Ef hann vegna líkamlegs vanþroska, heilsubrests eða annarra vanheilinda á óhægt með að ráða persónulegum högum sínum eða fé og æskir sjálfur lögræðissviptingar af þeim sökum.Um nánari skilyrði er síðan fjallað í öðrum greinum laganna. Það er að sjálfsögðu ljóst að mjög varlega verður að fara þegar tekin er ákvörðun um sviptingu lögræðis eða sjálfræðis/fjárræðis, enda mikilvæg mannréttindi að fá að ráða sér sjálfur! Þannig á sviptingin ekki að ganga lengra eða standa lengur en nauðsynlegt er, og dómsúrskurður er skilyrði hennar. Reyndar geta yfirlæknar sjúkrahúsa og dómsmálaráðuneyti ákveðið tímabundna nauðungarvistun á sjúkrahúsi að mjög ströngum skilyrðum uppfylltum og hún má ekki standa lengur en 72 klst. frá ákvörðun yfirlæknis og ekki lengur en 21 sólarhring eftir ákvörðun ráðuneytisins. Sé þá enn talin nauðsyn sjúkrahúsvistunar vegna fyrirmæla í heilbrigðislöggjöfinni þá verður að afla dómsúrskurðar. Það er hlutverk dómari að meta hvenær maður sé það illa haldinn geðveiki, áfengisfíkn, ellisljóleika og svo framvegis, að réttlætanlegt sé að svipta hann lögræði, sjálfræði eða fjárræði. Ekki er nóg að læknir fullyrði að maður sé geðveikur, dómari þarf að vera sannfærður um að svo sé og það sem meira er, að ástand hans sé svo slæmt að honum sé ómögulegt að ráða sér sjálfur. Hér þurfa tvímælalaust mjög sterk rök að koma til. Til dæmis að manninum sé beinlínis hætta búin ef enginn sér um hann, hann sé öðrum hættulegur, sólundi fjármunum sínum á fráleitan hátt svo til vandræða horfi fyrir aðra, til dæmis börn sem hann hefur á framfærslu sinni. Því eru meðal annars settar skorður hvenær má svipta mann lögræði að eigin ósk sbr. C lið 4. gr. hér að ofan! Í þessum ströngu skilyrðum og málsmeðferðarreglum birtist greinilega það mat löggjafans að sjálfræði og fjárræði séu grundvallarmannréttindi og að þeim verði ekki takmörk sett nema í algjörum undantekningartilvikum, jafnvel þótt viðkomandi æski þess sjálfur. Að öðru leyti verður ekki settur nánari rammi um þetta mat og það lagt í hendur dómara enda geta málsatvik og aðstæður oft verið mjög sérstakar.
Lagatilvísanir uppfærðar í júní 2020.