Þegar rætt er um firði eru menn ósammála um Ísafjarðardjúp eins og stendur á Íslandskortinu. Gaman væri að fá úr því skorið hvernig í þessu liggur. Það er að segja hvað heitir þessi fjörður, þessi stóri sem allir firðirnir ganga inn úr eins og við tölum um Arnarfjörð og svo firðina fyrir innan. Er verið að vísa í svipaðan hlut þegar talað er um Ísafjarðardjúp og Grindavíkurdjúp?Í Landnámabók er sagt frá Þuríði sundafylli sem nam Bolungarvík. Þar segir: „Hon setti ok Kvíarmið á Ísafjarðardjúpi ok tók til á kollótta af hverjum bónda í Ísafirði.“ (Ísl. fornrit I,186). Kvíarmið er talið hafa verið undan Stigahlíð og eru þar enn þekkt mið kennd við Kví. Greinilegt er að átt er aðeins við sjávardjúpið út af Ísafirði, sem þá hefur verið nafnið á öllum firðinum, en nú venjulega nefnt Ísafjarðardjúp. Þegar talað er um hvern bónda í Ísafirði er átt við bændur í kringum núverandi Ísafjarðardjúp. Á tíma Landnámuskrifa hefur Ísafjarðardjúp því verið hliðstætt Grindavíkurdjúpi. Önnur dæmi um Ísafjarðardjúp í fornum textum eru í Sturlungu (til dæmis Þórðar sögu kakala) (II,51).

Stóri fjörðurinn sem gengur inn í norðvestanverðan Vestfjarðarkjálkann var fyrir langa löngu nefndur Ísafjörður en hefur öldum saman gengið undir heitinu Ísafjarðardjúp. Ísafjörður er nú aðeins notað um innsta fjörðinn sem gengur inn úr Ísafjarðardjúpi og svo um byggðina sem stendur við Skutulsfjörð.
- Árni Magnússon og Páll Vídalín, Jarðabók VII. Kaupmannahöfn 1940.
- Björn Gunnlaugsson, Uppdráttr Íslands. Kaupmannahöfn 1849. Íslandsatlas. Reykjavík 2015.
- Landnámabók. Íslensk fornrit I. Reykjavík 1968.
- Sturlunga saga I-II. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn sáu um útgáfuna. Reykjavík 1946.
- Kort: Grunnur fengin úr Kortasjá Landmælinga Íslands en heiti sett inn af ritstjórn Vísindavefsins.