Hvernig er reiknað í tvíundakerfi?og Ólafur Jón vildi fá að vita hvort erfitt væri að læra á tvíundakerfið í tölvum. Tvíundakerfið (e. binary numeral system) er talnakerfi eða sætiskerfi með grunntöluna 2. Þegar tala er rituð í tvíundakerfinu svarar hvert sæti til veldis af tveimur og getur aðeins innihaldið tölustafinn 0 eða 1. Talnakerfið sem við þekkjum best er tugakerfið, sætiskerfi með grunntöluna 10. Þar getur hvert sæti innihaldið tíu möguleg tákn, tölustafina 0 til 9. Við finnum gildi tölu með því að margfalda töluna í hverju sæti hennar með því veldi af grunntölunni sem sætið segir til um, og leggja saman við samsvarandi margfeldi fyrir hin sætin. Skoðum til dæmis töluna 2187 í tugakerfinu. Þar sem talan 7 er í aftasta eða „núllta“ sæti er hún margfölduð með 1 (\(10^0 = 1\)), þar sem talan 8 er í næstaftasta eða „fyrsta“ sæti er hún margfölduð með 10 (\(10^1 = 10\)) og svo framvegis, og við fáum að \[2187_{tug} = 2 \cdot 10^3 + 1\cdot 10^2 + 8\cdot 10^1 + 7\cdot 10^0 = 2000 + 100 + 80 + 7\] Gildi talna í tvíundakerfinu er fundið með sama hætti en þá er margfaldað með veldi af tveimur í staðinn fyrir veldi af tíu. Ef við skoðum til dæmis töluna 1001 í tvíundakerfinu fáum við \[1001_{tví} = 1\cdot 2^3 + 0\cdot 2^2 + 0\cdot 2^1 + 1\cdot 2^0 = 8 + 0 + 0 + 1 = 9_{tug}\] Með þessum hætti er einfalt að umrita tölu ritaða í tvíundakerfinu yfir í tugakerfið.

Stundum er talað um að tölvur séu fullar af núllum og ásum. Það er vegna þess að gögn og skipanir í tölvum eru oftast táknuð með tvíundakerfistölum.

Hið forna kínverska spádómskerfi I Ching veitti Leibniz innblástur við að finna upp tvíundakerfið, en þessi I Ching-tafla var í eigu Leibniz. Við hvert tákn eru sex strik þar sem hvert strik er annaðhvort brotið eða heilt, ekki ósvipað sex stafa tölu þar sem hver tölustafur er annaðhvort 0 eða 1.
- Af hverju byggjast tölvur upp á 1 og 0? eftir Hjálmtý Hafsteinsson. (Skoðað 6. 7. 2016).
- Hvers vegna notum við sætiskerfi og hvaða kosti hefur það umfram önnur talnakerfi? eftir Kristínu Bjarnadóttur. (Skoðað 6. 7. 2016).
- Binary number - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 6. 7. 2016).
- Binario - Wikimedia Commons. (Sótt 6. 7. 2016).
- Diagram of I Ching hexagrams owned by Gottfried Wilhelm Leibniz - Wikimedia Commons. (Sótt 6. 7. 2016).
Þetta svar er eftir nemendur í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2016.