Í svari Kristófers Þorleifssonar við spurningunni Hvað er martröð og hvað orsakar hana? segir þetta:
Martraðir eru langir draumar, þar sem fólk er hrætt og vaknar upp óttaslegið. Sumir fá mjög oft martraðir en aðrir aðeins einstaka sinnum, helst ef þeir eru þreyttir, undir álagi eða veikir. Um 50% fullorðinna segjast fá martraðir við og við. Yfirleitt er ekki þörf neinnar sérstakrar meðferðar við martröðum. Lyf sem draga úr draumsvefni, það er að segja REM-svefni, geta stundum komið í veg fyrir martraðir.Í svari Kristófers kemur einnig fram að líklegt er talið að vöðvaslökun í draumsvefni þjóni hvíldarhlutverki. Þegar draumarnir verða að martröðum er hvíldin eflaust ekki eins góð og ella. Spyrjandi vill einnig fá að vita hvort martraðir sýni eitthvað. Við því höfum við eiginlega ekkert annað svar en að martraðirnir sýni það sem við "sjáum" í þeim. Ef spyrjandi hefur í huga hvort þær sýni okkur inn í eitthvað, til dæmis framtíðina, þá getum við bent honum á svar við spurningunni Hvernig rætast draumar? Það sem þar kemur fram getur allt eins átt við martraðir. Heimildir og frekara lesefni:
- Breytist svefnþörf með aldri fólks? eftir Magnús Jóhannsson
- Hvað er martröð og hvað orsakar hana? eftir Kristófer Þorleifsson
- Hvað er átt við með möru og tröð þegar menn fá martröð? eftir Guðrúnu Kvaran
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.