Góðan dag. Við erum krakkar í 4. bekk í Hraunvallaskóla. Við höfum verið í vísindasmiðju og upp kom ein spurning sem okkur langar að fá svar við. Spurning okkar er þessi; verða fiskar þyrstir? Með bestu kveðju, Vísindahópurinn í 4. bekk.Þurrlendisdýr lifa í stöðugri baráttu við ofþornun. Til að forðast dauðdaga af völdum ofþornunar hafa þau þróað með sér lífeðlisfræðilegt eftirlitskerfi sem gefur merki þegar seltujafnvægi líkamans raskast. Við köllum þetta þorsta og bregðumst við honum með því að drekka. Fiskar lifa eðlilega í allt öðru umhverfi en dýr á þurrlendi en sjálfsagt finna þeir líka til þorsta, þá aðallega fiskar í sjó. Blóð fiska sem lifa í sjó og söltu vatni hefur lægri saltstyrk en umhverfi þeirra. Þeir þurfa því stöðugt að berjast á móti því að tapa vatni úr líkamanum út í hið salta umhverfi. Til þess að viðhalda seltujafnvægi í líkamanum og koma í veg fyrir að „ofþorna“ þurfa þeir því að drekka líkt og dýr á landi. Þeir drekka sjó.

Fiskar í sjó eða söltu vatni þurfa að drekka sjó til þess að viðhalda saltjafnvægi í líkamanum. Ferskvatnsfiskar drekka hins vegar ekki heldur þurfa þeir að losa sig við umframvatn með þvagi.