Segir maður þúsundþjalasmiður eða þúsundfjalasmiður? Ég lærði að þetta ætti við um handlaginn trésmið, en ég hef einnig heyrt að það sé komið frá Völundi úr Völundakviðu.Orðið sem spurt er um er þúsundþjalasmiður, samsett af orðunum þúsund, þjöl og smiður. Orðið er notað um þann sem allt leikur í höndunum á, er mikill hagleiksmaður. Samkvæmt Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans þekkist orðið að minnsta kosti allt frá miðri 19. öld. Annað orð og talsvert eldra í sömu merkingu er þúsundvélasmiður. Elsta dæmi um það er úr þýðingu Guðbrands biskups Þorlákssonar á Summaria Viti Theodori Yfer allar Spamanna Bækurnar frá 1602. Dæmið er svona:
þuiad i soddan Efnum er hann [það er djöfullinn] Meistare / og Þusund Vielasmidur.Vél er þarna án efa í merkingunni ‘svik, tál’ (samanber vélabragð). Mín tilgáta er sú að vegna þess hve orðin eru lík í framburði og vél í þessari merkingu lítið notað orð (nema í vélabragð) hafi vél breyst í verkfærið þjöl sem smiðir nota mikið.

Orðið sem spurt er um er þúsundþjalasmiður, samsett af orðunum þúsund, þjöl og smiður. Orðið er notað um þann sem allt leikur í höndunum á, er mikill hagleiksmaður.
- The Carpenters Shop | Flickr - Photo Sharing! Myndrétthafi er Don Gunn. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 12.06.2016).