Ég er forvitinn að vita af hverju völundarhús heita þessu nafni?Orðið völundarhús er annars vegar notað um flókna byggingu með mörgum göngum og ranghölum en hins vegar um hluta af innra eyra. Fyrri merkingin er mun eldri og kemur þegar fram í fornu máli sem íslenskt orð yfir það sem á erlendum málum er kallað 'labyrint(h)'. Í gömlu biblíuþýðingunni Stjórn, sem varðveitt er í handritum frá 14. og 15. öld, stendur: „labyrinthus, hver er sumir kalla völundarhús.“ Í fornu máli finnst einnig orðið völundur notað um þann sem er sérlega verklaginn. Að baki orðsins völundur liggur karlmannsnafnið Völundur og er þar átt við alveg sérstaka persónu sem Völundarkviða, eitt af Eddukvæðum, var ort um. Völund þennan lét Níðuður konungur í Svíþjóð taka höndum, skera sinar á fótum hans og koma fyrir í hólma sem hét Sævarstaður. Um hann er sagt í formála fyrir kviðunni: „Hann var hagastur maður, svá menn viti, í fornum sögum,“ enda var hann látinn smíða alls kyns gersemar fyrir konung. Tveir synir Níðuðar fóru eitt sinn út í eyju til Völundar og drap hann báða, gerði silfurhúðaðar skálar úr höfuðkúpunum handa konungi, drottningu sendi hann augun í formi gimsteina en konungsdóttir fékk brjóstnælur úr tönnunum. Konungur syrgði mjög syni sína og fór til Völundar að spyrjast fyrir um þá. Hlæjandi sagði Völundur þá hvernig hann hafði hefnt sín á konungi.
- Labyrinth - Wikipedia. (Sótt 22.11.2021). Myndina tók AlMare og hún er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution-ShareAlike 3.0 Unported — CC BY-SA 3.0