Hvað er herör í orðatiltækinu að skera upp herör? Hver er uppruni orðatiltækisins?Orðatiltækið að skera upp herör kemur fyrir í fornu máli. Í Egils sögu sem er frá 13. öld segir í 3. kafla: "Auðbjörn konungr lét skera upp herör ok fara herboð um allt ríki sitt." Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans finnast dæmi um það frá fyrri hluta 20. aldar en elsta heimild á timarit.is er úr Skírni frá 1849. Herör var örvarmyndað kefli sem skilaboð voru rist á. Það var upphaflega sent milli bæja til að kalla menn til vopna. Að skera upp herör merkti þá ‘að kalla menn til vopna’, síðar í yfirfærðri merkingu ‘að leita liðsinnis manna við einhvern málstað’. Síðari heimildir sýna bæði dæmi um að skera upp herör fyrir einhverju ‘kveðja menn til liðsinnis’ og það sem algengara er að skera upp herör gegn einhverju eða einhverjum það er hvetja til andstöðu gegn einhverju eða einhverjum. Mynd:
- File:ML - Plumbate.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 21.11.2016). Myndin er birt undir leyfinu CC BY-SA 3.0. Wolfgang Sauber tók myndina.
Ritstjórn Vísindavefsins þakkar Torfa Tulinius fyrir ábendingu um dæmið úr Egils sögu.