Orðatiltæki er víðara hugtak en málsháttur. Undir það flokkast einkum orðtök, talshættir, fastar líkingar og fleyg orð. Orðtök geta verið fullmótaðar setningar sem fela í sér fullyrðingu en standa ekki algerlega sjálfstæðar, þær skiljast af samhenginu. Dæmi um þetta er: allt ber að sama brunni 'allt bendir í sömu átt'. Þarna verða menn að vita hvað átt er við með brunnur til að skilja hvað við er átt. Algengara er að orðatiltæki sé ekki fullgerð setning heldur fast orðasamband og merking þá venjulega breytt. Dæmi um þetta er að hafa eitthvað til brunns að bera 'vera gæddur einhverjum eiginleika' (Stúlkan hefur margt til brunns að bera). Samband af þessu tagi kalla sumir talshátt. Með föstum líkingum er átt við orðatiltæki sem hafa beina merkingu og felst gjarnan í þeim samanburður eða líking við eitthvað. Dæmi: hafa einhvern að blóraböggli (þ.e. sem blóraböggul) 'hafa einhvern til að kenna um eitthvað', gera einhverjum bjarnargreiða (þ.e. greiða eins og björn) 'valda einhverjum óvart tjóni eða meini'.

Hér á landi tíðkast það að inni í páskaeggjum sé málsháttur á blaði. Málsháttur er vanalega fullmótuð setning sem felur í sér einhverja fullyrðingu eða jafnvel lífspeki.
- Bjarni Vilhjálmsson og Óskar Halldórsson. 1966 og síðari útgáfur. Íslenzkir málshættir. Bls. vii -xii. Almenna bókafélagið, Reykjavík.
- Halldór Halldórsson. 1968 og síðari útgáfur. Íslenzkt orðtakasafn. Bls. v.-viii. Almenna bókafélagið, Reykjavík.
- Jón Friðjónsson. 1994. Mergur málsins. Bls. v - vii. Örn og Örlygur, Reykjavík.
- Wikipedia - Easter eggs. (Sótt 12.7.2018).