Erum hér að ræða um málningu í kirkju þar sem Eygló málari er að oðra spjöld og bekki. Við þekkjum orðið en finnum ekki í orðabókum né á ÍSLEX. Hvernig er orðið myndað og hvaðan er það komið? Úr dönsku? Finn þó ekki 'odre' eða 'odring'.Sögnin að oðra er tökuorð úr dönsku ådre sem notuð er um að líkja með málningu eftir æðum í viði. Hún finnst í sögulegu dönsku orðabókinni undir aadre (Ordbog over det danske sprog, 1. bindi 1919) og nefnd eru ýmis verkfæri sem notuð eru við vinnuna. Sögnin er ekki tekin með í Den danske ordbog sem er nýjasta stóra danska orðabókin sem bendir til að sögnin sé ekki mikið notuð núna. Báðar bækurnar eru aðgengilegar á netinu. Íslenska tökusögnin oðra virðist allvel þekkt ef draga má ályktun af þeim dæmum sem finnast með leit á netinu. Hún er þó ekki í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans og ekki í Íslenskri orðabók en örugg dæmi af timarit.is benda til að hún hafi að minnsta kosti verið notuð frá fyrri hluta 20. aldar. Mynd:
- Wood | Flickr - Photo Sharing! Myndrétthafi er Danny James Ford. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 23.06.2016).