Ræktun þess var almenn um 1950 og tók það við af yrkinu Gros Michel sem var óræktunarhæft vegna sveppasýkingar sem lagðist á rætur plantnanna og kallast Panamaveiki. Cavendish-bananar þykja ekki jafn bragðgóðir og Gros Michel en líf- og geymslutími þess er lengri. Yrkið Cavendish hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár. Ástæðan er Fusarium-sveppur sem hefur breiðst hratt út og drepur plönturnar. Útbreiðsla sveppsins hefur verið frá Fiji-eyjum um Asíu til Afríku og Mið-Austurlanda. Sveppurinn, sem kallast fullu nafni Fusarium oxysporum f.sp. cubense TR4, hefur herjað á bananarækt í Asíu í rúm tuttugu ár og gert mikinn usla í Kína, Indónesíu, Malasíu og Taívan. Árið 2013 varð hans fyrst vart í Afríku og síðan hefur hann verið að breiðast út þar sem bananar eru ræktaðir í álfunni og yfir til Mið-Ameríku. Á sama tíma og sýking vegna sveppsins breiðist út hefur verið reynt að finna yrki sem getur komið í staðinn fyrir Cavendish en þær prófanir skilað litlu. Sveppurinn hefur lagst á mörg þeirra og þau sem þola hann hafa ekki reynst eins bragðgóð og með eins langan geymslutíma og Cavendish.Þessi sveppur sem ógnar bananaframleiðslu í heiminum getur haft alvarlegar afleiðingar, sérstaklega fyrir fátækari lönd heims því samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum eru bananar fjórða mikilvægasta matvaran í þróunarríkjum heimsins. Bananaplöntur eru ræktaðar í yfir 100 löndum og þá ekki aðeins vegna ávaxtanna heldur einnig sem skrautjurtir, plönturnar eru trefjakenndar og trefjarnar eru notaðar til framleiðslu ýmissa hluta en einnig eru bananaplöntur ræktaðar til vín- og bjórframleiðslu. Árið 2013 var heimsframleiðslan á banönum um 144 milljón tonn. Indverjar rækta mest allar, með um 19% en þar á eftir koma Kínverjar með um 8%. Aðeins um 15% heimsframleiðslunnar fer á alþjóðlegan markað. Helstu útflytjendur banana eru Ameríkuríkin Ekvador, Gvatemala, Kosta Ríka og Kólumbía, auk Filippseyja. Heimildir og myndir:
- Vimundur Hansen. Allt sami bananinn. Bændablaðið, 29. júní 2015. (Skoðað 2. júní 2016).
- Banana - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 2. júní 2016).
- List of banana cultivars - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 2. júní 2016).
- Sameinuðu þjóðirnar vara við bananakreppu - Viðskiptablaðið. (Skoðað 2. júní 2016).
- Zanzibar Wonders! | The rock restaurant. (Sótt 6. 6. 2016).
- Bananas.jpg - Wikimedia Commons. Höfundur myndar: Steve Hopson. (Sótt 6. 6. 2016).