
„Ber ekki Háskólanum að kalla þessa nemendur aftur til sín rétt eins og fyrirtækjum er skylt að kalla inn gallaða vöru sem þau hafa sent á markaðinn?“
Doktorsnám skal stuðla að því að nemendur öðlist, auk sérhæfðrar fræðilegrar þekkingar, almenna og hagnýta þekkingu, s.s. á sviði siðfræði vísinda, aðferðafræði vísinda, gerðar styrkumsókna, hagnýtingar hugverka, kynningar vísindalegra niðurstaðna sinna fyrir sérfræðingum og almenningi, og öðlist þá faglegu og félagslegu færni sem þeir þurfa að búa yfir í framtíðarstarfi.[4]Annað atriði sem vert er að minna hér á eru ákvæði úr Stefnu Háskóla Íslands 2001-2016 sem lúta að mikilvægi þess að efla vísindasiðferði og samfélagsábyrgð:
Í [HÍ] ríkir akademískt frelsi sem stuðlar að gagnrýninni og frjórri hugsun, áræðni og víðsýni. Starfsmenn rækja störf sín af fagmennsku og ábyrgð. Viðurkennd gildi vísindasiðferðis eru ávallt í heiðri höfð.Þriðja innra tilefnið sem ég nefni hér er ákvæði úr reglum Vísindasiðanefndar HÍ um vísindalega ráðvendni rannsakenda og rannsóknastofnana:
Lögð er rík áhersla á að efla siðferðilega dómgreind, vitund um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð starfsmanna jafnt sem nemenda og þar með samfélagsins alls til lengri tíma.
Öll fræðasvið og deildir setji sér markmið og skilgreini leiðir til að flétta saman siðfræði og faglegt nám, efla siðferðilega dómgreind og þjálfa gagnrýna hugsun.[5]
Með óvönduðum starfsháttum er unnið gegn öflun nýrrar þekkingar. Krafan um rétt og vönduð vinnubrögð er því ófrávíkjanleg í öllum rannsóknum. Greina má á milli mismunandi alvarlegra frávika í rannsóknarstarfi, allt frá kæruleysi og óvönduðum vinnubrögðum til svika. Brotum í rannsóknum má skipta í tvennt: misferli og svik. Misferli eru skilgreind sem gróf vanræksla og ábyrgðarleysi við framkvæmd rannsókna. Svikum, sem fela í sér vísvitandi blekkingu, má skipta upp í uppspuna, villandi upplýsingar, ritstuld og misnotkun. [6]Grundvallarskyldur vísindamanna eru að halla ekki réttu máli, að hafa jafnan það sem sannara reynist eins og Ari fróði orðaði þessa frumskyldu. En jafnframt því sem þetta er forsenda þekkingaröflunar þá felur vísindaleg óráðvendni líka í sér svik við samfélagið, því að grafið er undan þeim sem taka ákvarðanir sem varða almannahagsmuni. Það er vitaskuld lágmarkskrafa til vísindamanna að ástunda ekki svik eða misferli, sjálfsögð skylda sem er samofin öllu réttnefndu fræðastarfi. Til viðbótar þessari höfuðskyldu vil ég nefna kröfu um árvekni sem eðlilegt er að gera til fræðimanna, en hún felur í sér að vísindamenn ættu að vera á varðbergi gagnvart öflum sem ógna frjálsri rökræðu og hamla sannleiksleit.[7] Slíka árvekniskröfu mætti til dæmis útfæra nánar þannig að fræðimönnum (1) beri að leiðrétta rangfærslur á fræðasviðinu (svo sem um söguskilning, túlkun á tölfræðilegum niðurstöðum eða um stöðu náttúrusvæða þar sem til stendur að virkja eða byggja verksmiðju[8]); þeir ættu (2) að sporna gegn því að þekking sé notuð í skaðlegu skyni eða til þess að villa um fyrir almenningi (svo sem að niðurstöðum sé hagrætt í fjárhagslegu eða persónulegu hagnaðarskyni). Mér virðist að vísindaleg ráðvendni og árvekni varði vandaða starfshætti í öllum fræðigreinum, óháð viðfangsefnum. Ólíkar og sértækari siðferðilegar spurningar rísa aftur á móti í tengslum við mismunandi fræðileg viðfangsefni, svo um framkomu við dýr og umhverfi í lífvísindum, áhrif rannsókna á fólki í heilbrigðisvísindum og félagsvísindum, og afleiðingar þekkingaröflunar, túlkunar hennar og notkunar, fyrir samfélagið í raunvísindum, verkfræði, félagsvísindum, hugvísindum og menntavísindum. Í viðleitni til að sporna gegn vísindalegri óráðvendi og tryggja virðingu fyrir viðfangsefnum vísinda hefur lengi verið lögð áhersla á að móta siðareglur eða viðmið um vandaða starfshætti og koma á eftirlitskerfi með þeim. Á síðustu árum hefur jafnframt þessu verið stóraukin áhersla verið lögð á að leitast við að fyrirbyggja óráðvendni og efla árvekni með því að efla menntun í siðfræði vísinda og rannsókna, einkum hjá doktorsnemum sem leggja munu stund á rannsóknir.[9] Þessu má líkja við heilsuvernd þar sem leitast er við að koma í veg fyrir slys og sjúkdóma og draga þar með úr þörfinni fyrir innlagnir og bráðaþjónustu.

Vísindaleg ráðvendni og árvekni varðar vandaða starfshætti í öllum fræðigreinum, óháð viðfangsefnum.
- ^ Þetta svar var upprunalega flutt sem erindi á málþingi um siðfræði í vísindum og miðlun góðra vinnubragða til doktorsnema á vegum Miðstöðvar framhaldsnáms, Háskóla Íslands 22. janúar 2016.
- ^ Páll Skúlason, „Allir þurfa að læra siðfræði”, Stúdentablaðið 85 (2009:3): 31.
- ^ Sama stað.
- ^ „Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands“. Samþykkt á háskólaþingi 18. apríl og í háskólaráði 3. maí 2012. Sótt 15. febrúar 2016 á vefsíðu Háskóla Íslands: http://www.hi.is/sites/default/files/oldSchool/vidmid_og_krofur_um_gaedi_doktorsnams_vid_hi.pdf. Feitletrun mín. Fyrsta samþykktin um þetta efni var gerð á háskólafundi 21. maí 2004.
- ^ Sótt 15. febrúar 2016 á vefsíðu Háskóla Íslands: http://www.hi.is/adalvefur/stefna_haskola_islands_2011_2016. Feitletrun mín.
- ^ Sótt 15. febrúar 2016 á vefsíðu Háskóla Íslands: http://www.hi.is/sites/default/files/admin/meginmal/skjol/vshi_sidareglur_16_1_2014.pdf.
- ^ Sjá grein mína, „Árvekni eða auðsveipni. Hlutverk hugvísindamanna í samfélagsumræðu“, Hugsmíðar. Um siðferði, stjórnmál og samfélag (Háskólaútgáfan 2014), bls. 187-201.
- ^ Sjá gott dæmi um slíka árvekni jarðvísindamanns við Háskóla Íslands: http://www.ruv.is/frett/oheppilegasti-stadurinn-fyrir-malmbraedslu.
- ^ Research Integrity in the Nordic countries - national systems and procedures. NordForsk Expert Seminar, Oslo 9. apríl 2014 (Osló: NordForsk 2015). Netútgáfa: http://www.nordforsk.org/en/publications/publications_container/research-integrity-in-the-nordic-countries-2013-national-systems-and-procedures/view.
- ^ Sem dæmi má nefna: Við Edinborgarháskóla: http://www.ed.ac.uk/institute-academic-development/postgraduate/doctoral/courses/online-courses/greim. Við Karolinska Institutet (læknaháskóli): http://kiwas.ki.se/katalog/katalog/kurs/2174. Við danska háskóla: http://phdcourses.dk/?searchWord=research+ethics&x=14&y=13®ionId=&networkId=#.VsI20xiLSL2. Allar vefslóðir voru heimsóttar 15. febrúar 2016. Ég þakka Helgu Ögmundsdóttur, prófessor við læknadeild, fyrir að benda mér á þessi dæmi, en hún lagði út af þeim á málþingi um siðfræði í vísindum og miðlun góðra vinnubragða til doktorsnema á vegum Miðstöðvar framhaldsnáms, Háskóla Íslands 22. janúar 2016 .
- Car - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 22.02.2016).
- Laboratory - Free images on Pixabay. (Sótt 22.02.2016).