Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Riðuveiki eða riða í sauðfé er smitandi sjúkdómur í heila og mænu, kvalafullur og langvinnur. Skemmdir sem verða í heilanum leiða til einkenna frá taugakerfi svo sem ótta, öryggisleysis og fælni. Oft sést og finnst hárfínn titringur eða skjálfti og tannagnístur heyrist nær alltaf í riðuveikum kindum. Fyrir kemur að riðukindur sjái illa, þær gangi á og beri framfætur hátt. Oft ber á slettingi í gangi, lömun eða þróttleysi. Kindurnar geta snarast um koll ef tekið er í horn. Oftast ber á vanþrifum þegar líður á sjúkdóminn.
Það er margt sem vísindamenn vita ekki enn um riðuveiki eða hafa ekki getað staðfest með vísindalegum aðferðum. Til dæmis er sjúkdómsvaldurinn eða smitefnið ekki að fullu þekkt og ekki smitleiðirnar heldur.
Sauðfé smitast fyrst og fremst með því að skepnurnar éta, drekka eða sleikja smitefnið í sig. Smit getur einnig orðið um sár.
Smitleiðir riðuveiki frá kind til kindar, frá einum stað til annars og milli landshluta, virðast margar en fæstar sannaðar vísindalega, þótt reynslan gefi eindregnar vísbendingar. Smithætta er talin fylgja öllu sem saurmengast, smit getur borist með sauðburði, slefa eða munnvatn er talið skipta máli til dæmis vegna drykkjaríláta sem margar kindur eiga aðgang að, og smit er einnig talið geta borist á milli kinda með rúningsklippum, sprautunálum og fleiru. Einnig virðist hey tengjast smiti á einhvern hátt.
Engin lækning er þekkt við riðuveiki, ekkert bóluefni og engin nothæf próf sem nota má til að leita uppi smitbera í lifandi fé. Af þeim sökum er ekkert annað að gera en að farga sýktum dýrum. Þar sem ekki er vitað fyrir víst hvernig smit berst og ekki er hægt að sjá hvort einkennalaus dýr bera með sér smit verður að skera niður allan fjárstofninn á þeim stað þar sem sýking hefur komið upp.
Það sem hér hefur verið sagt er byggt á ítarlegum svörum Sigurðar Sigurðarsonar dýralæknis um riðuveiki hér á Vísindavefnum. Lesendur eru hvattir til að kynna sér svör hans í heild sinni:
Af hverju fá kindur riðuveiki? Af hverju þarf að drepa kindina ef hún fær riðuveiki, er ekki hægt að lækna hana? Af hverju þarf að drepa allar kindurnar á bænum ef ein fær riðuveiki?
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.
EDS. „Af hverju þarf að drepa kindina ef hún fær riðuveiki, er ekki hægt að lækna hana?“ Vísindavefurinn, 5. mars 2008, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7170.
EDS. (2008, 5. mars). Af hverju þarf að drepa kindina ef hún fær riðuveiki, er ekki hægt að lækna hana? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7170
EDS. „Af hverju þarf að drepa kindina ef hún fær riðuveiki, er ekki hægt að lækna hana?“ Vísindavefurinn. 5. mar. 2008. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7170>.